Í bréfi sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, sendi flokksmönnum Framsóknarflokksins í dag segir hann margt sem sagt hafi verið um hann undanfarnar vikur ekki standast skoðun. „En þrátt fyrir að við hjónin höfðum birt samantekt um málið og sýnt fram á að fullyrðingar um að forsætisráðherra Íslands leyndi peningum í skattaskjóli væru ósannar vilja andstæðingar okkar ekki heyra eða skilja sannleikann. Látið er eins og engar eða ónógar skýringar hafi komið fram og andstæðingar okkar endurtaka í sífellu að ég þurfi að skýra mál mitt,“ skrifar hann meðal annars.
Þess ber að geta að Sigmundur hefur ekki viljað svara spurningum fjölmiðla um hvernig talið hafi verið fram til skatts; til dæmis spurningum um hvort hann, eða eiginkona hans, hafi skilað sérstöku CFC framtali eins og skylt er samkvæmt lögum. Í viðtali í Morgunblaðinu um helgina segist hann reiðubúinn að birta öll gögn varðandi skattframtöl þeirra hjóna, með því skilyrði að forystumenn annarra stjórnmálaflokka geri það líka.
Í bréfinu segir Sigmundur Davíð ennfremur að sjónvarpsmennirnir sem undurbjuggu viðtalið við hann í sænska fréttaskýringaþættinum Uppdrag granskning hafi gert það með það eitt í huga að láta hann líta sem verst út. „Atriði var hannað á fölskum forsendum sem ætlað var að styðja við sögu sem þegar hafði verið skrifuð óháð staðreyndum. Fram kom í þætti þessum að sænskur sjónvarpsmaður sem er þekktur af því að beita óhefðbundnum aðferðum hafi þó haft efasemdir um að réttlætanlegt væri að beita mig slíkum brögðum. Efasemdir um að ganga eins langt og raun bar vitni í því að rugla viðmælandann í ríminu til að láta hann koma sem verst út. Skrifað var handrit fyrir fram, að því með hvaða hætti dregin yrði upp sem neikvæðust mynd af mér og mínum,“ skrifar Sigmundur Davíð. Hann viðurkennir hins vegar að hann hafi staðið sig illa í umræddu viðtali og biður flokksmenn afsökunar á því.
Að lokum biður Sigmundur flokksmenn að sýna því skilning eftir undangengna orrahríð að hann hafi þörf á því að taka sér smá tíma til að vera í næði með konu sinni og barni. „Eftir smá hvíld mun ég svo ferðast um landið til að hitta ykkur vonandi sem flest, ræða stöðuna í samfélagi okkar og svara hverjum þeim spurningum sem þið kunnið að hafa. Við höfum gengið í gegnum mikið saman og unnið mikla sigra í miklu mótlæti. Mörgu er samt ólokið og ég er sannfærður um að við getum haldið áfram að nýta tækifæri Íslands og haldið uppbyggingunni áfram. Ekki eru öll kurl komin til grafar. Ég trúi því að staðreyndir, skynsemi, rök og sannleikurinn sigri að lokum. Þess vegna er ég framsóknarmaður.“
Hér er bréf Sigmundar Davíðs í heild:
Kæru flokksmenn.
Ég færi ykkur þakkir mínar fyrir þau fjölmörgu hvatningarskeyti og fallegu kveðjur sem mér og Önnu Stellu hafa borist á undanförnum dögum og vikum. Í þeim erfiðleikum sem við Anna Stella höfum gengið í gegnum er slíkur hlýhugur og vinskapur ómetanlegur og yljar okkur um hjartarætur.
Síðustu vikur hafa verið mér og mínum afar erfiðar en þetta hefur líka verið lærdómsríkur tími fyrir mig á margan hátt. Að sjálfsögðu mun ég draga lærdóm af eigin viðbrögðum, enda lærum við ætíð mest um okkur sjálf af eigin reynslu og allt getur það nýst okkur til að gera hlutina betur í framtíðinni.
Á vígvelli stjórnmála er tilgangurinn oft látinn helga þau meðul sem beitt er og margt sagt sem ekki stenst nánari skoðun. Þegar hart er sótt að ykkur vegna mín eða fjölskyldu minnar bið ég ykkur að muna að allt sem gert var er í fullu samræmi við lög og reglur, öll fjármál okkar hjóna eru og voru tíunduð eins og vera ber í skattframtali okkar. Auk þess hef ég í störfum mínum ætíð leitast við að taka ákvarðanir út frá því hvað best væri til þess fallið að tryggja framgang þeirra stóru verkefna sem ég hef unnið að og gæta með því almannahagsmuna.
Ég minni á þær viðamiklu upplýsingar sem við hjónin birtum á heimasíðu minni á páskadag (http://sigmundurdavid.is/hvad-snyr-upp-og-nidur/) auk yfirlýsinga frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG þar sem fram kom að eignum hefði ekki verið leynt og allir skattar greiddir. Þessar tvær samantektir standa enn fyrir sínu og skýra alla málavexti.
En þrátt fyrir að við hjónin höfðum birt samantekt um málið og sýnt fram á að fullyrðingar um að forsætisráðherra Íslands leyndi peningum í skattaskjóli væru ósannar vilja andstæðingar okkar ekki heyra eða skilja sannleikann. Látið er eins og engar eða ónógar skýringar hafi komið fram og andstæðingar okkar endurtaka í sífellu að ég þurfi að skýra mál mitt.
Nú hefur verið upplýst í sænskum sjónvarpsþætti að þeir sjónvarpsmenn sem í hlut áttu undirbjuggu skipulega viðtal við mig með það eitt í huga að ég yrði látinn líta sem verst út. Atriði var hannað á fölskum forsendum sem ætlað var að styðja við sögu sem þegar hafði verið skrifuð óháð staðreyndum. Fram kom í þætti þessum að sænskur sjónvarpsmaður sem er þekktur af því að beita óhefðbundnum aðferðum hafi þó haft efasemdir um að réttlætanlegt væri að beita mig slíkum brögðum. Efasemdir um að ganga eins langt og raun bar vitni í því að rugla viðmælandann í ríminu til að láta hann koma sem verst út. Skrifað var handrit fyrir fram, að því með hvaða hætti dregin yrði upp sem neikvæðust mynd af mér og mínum.
Þrátt fyrir að upplegg hafi verið með þessum hætti er ég fyrstur manna til að viðurkenna að ég stóð mig illa i umræddu viðtali. Á sama augnablikinu áttaði ég mig á því að allur aðdragandi viðtalsins hafði byggst á ósannindum og tilgangurinn verið sá að leiða mig í gildru til að hanka mig á einhverju en um leið var ég að reyna að átta mig á því að hverju það snéri. Ég bið ykkur afsökunar á framistöðu minni í umræddu viðtali. Engum finnst sú framistaða sárari en mér sjálfum.
Ég taldi þó að þegar sýnt yrði fram á að upprunalegar ályktanir um mig og eiginkonu mína ættu ekki við rök að styðjast yrði tekið tillit til þess. Þess í stað héldu menn sig við það sem lagt hafði verið upp með og létu eins og engar skýringar hefðu komið fram. Blaðamaður Morgunblaðsins hefur nú t.d. upplýst að hann hafi fengið staðfestingu þess hjá sérfræðingi hjá erlendri fjármálamiðstöð sem sjónvarpsfólk Kastljóss ræddi við, að það hafi ekki haft áhuga á upplýsingum sem ekki studdu þeirra nálgun að málefninu.
Ég hefði því átt að upplýsa um blekkingar sjónvarpsmannanna strax fremur en að leggja eingöngu áherslu á að veita góðar upplýsingar í þeirri trú að menn sæju þá ekki lengur ástæðu til að setja málið fram með þeim hætti sem raun varð. Sömuleiðis hefði ég viljað gera margt á annan veg, eftir á að hyggja.
Kæru félagar.
Á tímum sem þessum kemur einnig í ljós hverjir eru vinir í raun og líka að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Sumir þeirra sem ég hafði jafnvel efast um að styddu mig í raun hafa í þessum erfiðleikum reynst mér einstaklega vel sem gegnheilir vinir. Í þessu felst mikill lærdómur um mikilvægi þess að hafa ætíð opinn huga gagnvart fólki og ekki draga ályktanir nema út frá staðreyndum.
Ég skil mjög vel að margir hafi upplifað óvissu undanfarna daga. En nú er mikilvægt við styðjum öll við bakið á Sigurði Inga og veitum honum og öðrum ráðherrum og þingmönnum þann stuðning sem nauðsynlegur er til að ljúka hratt og vel þeim mikilvægu verkefnum sem eru komin svo vel á veg.
Ég tel mig hafa, með góðum stuðningi ykkar, unnið landi og þjóð margt til heilla allt frá því ég hóf þátttöku í stjórnmálum. Þegar atgangurinn og illindin hafa verið hvað mest gagnvart mér og fjölskyldu minni verð ég þó að játa, að eitt og annað sækir á hugann um hlutanna eðli.
Ég bið ykkur kæru flokksmenn að sýna því skilning að eftir undangengna orrahríð hef ég þörf fyrir að taka mér tíma til að vera í næði með konu minni og barni. Eftir smá hvíld mun ég svo ferðast um landið til að hitta ykkur vonandi sem flest, ræða stöðuna í samfélagi okkar og svara hverjum þeim spurningum sem þið kunnið að hafa. Við höfum gengið í gegnum mikið saman og unnið mikla sigra í miklu mótlæti. Mörgu er samt ólokið og ég er sannfærður um að við getum haldið áfram að nýta tækifæri Íslands og haldið uppbyggingunni áfram. Ekki eru öll kurl komin til grafar. Ég trúi því að staðreyndir, skynsemi, rök og sannleikurinn sigri að lokum. Þess vegna er ég framsóknarmaður.
Með kærri vinar og flokkskveðju,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Athugasemdir