Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, segir þá hugmynd Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra að nýta sumarþing Alþingis til afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga fráleita. Stjórnarskrárnefnd, skipuð af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra í upphafi kjörtímabils, skilaði af sér þremur frumvörpum til stjórnarskipunarlaga í gær.
Fram kom í viðtali við Sigurð á vef RÚV að brýnt væri að ljúka málinu áður en kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningar í haust hæfist. „Þessi hugmynd forsætisráðherra er svo fráleit að það hálfa væri nóg. Tillögurnar eru í fyrsta lagi algerlega útþynntar og máttlausar eftir meðfarir stjórnarskrárnefndar á upprunatillögunum. Þá á líka að sniðganga vilja þjóðarinnar og sleppa því að setja stjórnarskrárbreytingar í bindandi þjóðaratkvæði,“ skrifar Birgitta Jónsdóttir á Facebook-síðu sinni.
„Þá er ljóst að enginn almennilegur tími gefst til að eiga samtal við þjóðina um breytingarnar né verður tími á þinginu til að vinna þetta í sátt, því ef lesið er í bókanir þær sem komu með þessum tillögum er alveg ljóst að engin sátt er um málið.“ Fleiri fulltrúar stjórnarandstöðunnar töluðu á svipuðum nótum í gær.
Athugasemdir