Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, gerir dómaraskipan Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra við Landsrétt að umfjöllunarefni sínu í grein Lögmannablaðsins sem kom út í dag. Í greininni gagnrýnir Reimar vinnubrögð Sigríðar harðlega, segir Bjarta framtíð og Viðreisn hafa sýnt af sér virðingaleysi fyrir vandaðri stjórnsýslu og sjálfstæði dómara og að ráðast þurfi tafarlaust í aðgerðir svo að sátt ríki við dómaraskipanir í framtíðinni.
Tilefni greinaskrifa Reimars var tillaga Sigríðar Andersen um skipan dómara sem fól í sér að fjórum umsækjendum, sem nefnd um dómnefnd hafði metið í hópi 15 hæfustu umsækjenda, var skipt út fyrir aðra fjóra umsækjendur sem allir eru starfandi héraðsdómarar. Þetta gerði ráðherra undir þeim formerkjum að hún teldi nefndina ekki hafa gefið dómarareynslu nægilegt vægi í hæfnismati sínu.
Samkvæmt tillögu Sigríðar sem Alþingi samþykkti í byrjun mánaðarins var karlmaður, Jón Finnbjörnsson, sem lenti í 30. sæti á lista dómnefndarinnar færður upp fyrir fimm konur sem metnar höfðu verið hæfari en hann. Bent hefur verið á að Jón er eiginmaður Erlu S. Árnadóttur sem var vinnuveitandi Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra til margra ára hjá lögmannsstofunni Lex. Jafnframt var Arnfríður Einarsdóttir, eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, skipuð dómari, en hún hafði lent í 18. sæti á lista dómnefndarinnar þrátt fyrir margra ára reynslu af dómarastörfum.
„Ráðherra kaus að ganga gegn umsögn dómnefndarinnar. Sérstakar reglur bundu hendur ráðherra þegar hann gerði það. Ráðherra varð samt sem áður að velja hæfasta umsækjandann og byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum og fullnægjandi rannsókn. Ráðherra mistókst. Sjónarmið ráðherra var að gefa dómarareynslu aukið vægi. Niðurstöðu ráðherra skorti rökrétt samhengi við það sjónarmið,“ segir í grein Reimars.
Þá segir Reimar Alþingi hafa skort skilning á hlutverki sínu við skipun dómara við Landsrétt. „Ráðherra var skylt að leggja tillögur sínar um skipun landsréttardómara fyrir Alþingi til samþykktar. Jafnframt var ráðherra skylt að afla heimildar Alþingis til að víkja frá umsögn dómnefndarinnar. Í þessu fyrirkomulagi fólst ekki heimild ráðherra til að beita geðþótta við tillögugerðina. Þvert á móti fólst í þessu sérstök vörn gegn geðþóttaákvörðun hans. Alþingi virðist hafa skort skilning á þessu. Formenn tveggja stjórnarflokka upplýstu til dæmis eftir afgreiðslu þingsins að þeirra þingflokkar hafi tilkynnt ráðherra þegar umsögnin lá fyrir að niðurstaða nefndarinnar „færi ekki í gegn.“ Áður yrði að leiðrétta „kynjahalla“,“ segir Reimar.
Reimar segir kröfu þingflokkanna tveggja standast illa lög. Notkun kynjasjónarmiða til að skáka út hæfari umsækjendum sé nefnilega andstæð lögum og stjórnarskrá. „Því gat aldrei komið til álita að hafna niðurstöðu nefndarinnar á þessum forsendum nema fyrir lægi vönduð rannsókn sem staðfesti að til staðar væru jafnhæfir umsækjendur af mismunandi kyni. Eftir að ráðherra var gerður afturreka virðist hann enga tilraun hafa gert til að framkvæma rannsókn sem þessa í þágu kynjasjónarmiða.“
Hann segir heldur ekki augljóst hvernig slík rannsókn hefði getað leitt til þeirrar niðurstöðu sem þingflokkarnir kröfðust. Næstu tvær konur á lista væru nefnilega í 18. og 19. sæti eða talvsert fyrir neðan neðstu tvo karlana í mati dómnefndarinnar, en þeir voru í 12. og 14. sæti.
Reimari þykir sérkennilegt að afskipti stjórnarflokkanna tveggja af framsetningu listans hafi ekki komið fram við umræður á Alþingi. „Í nefndaráliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er þess í stað lögð áhersla á að Alþingi hafi ekki frumkvæði að hvernig ráðherra beitir tillöguvaldi sínu. Alþingi hafi aðeins „eftirlit“ með lögmæti vinnubragða og tillögugerðar ráðherra. Fyrirfram afskipti stjórnarflokkanna af tillögugerð ráðherra samrýmast vart slíku eftirliti. Þessu hljóta þeir þingmenn sem um teflir að hafa gert sér grein fyrir. Með því að ákveða fyrirfram að málið „færi ekki í gegn“ hafa þeir því gerst berir að tvískinnungi og virðingarleysi fyrir vandaðri stjórnsýslu, réttaröryggi og sjálfstæði dómstóla,“ segir Reimar.
Þá þykir Reimari atburðarrásin við skipan dómaranna til þess fallin að ala á þeirri trú meðal almennings að eitthvað annað en hæfni hafi ráðið við val á dómurum. „Fyrir dyrum stendur að skipa átta nýja héraðsdómara og mikilvægt er að ráðherra og meirihluti Alþingis bregðist við þegar í stað til að vinna aftur tiltrú almennings. Til að svo megi verða þarf að ráðast tafarlaust í aðgerðir sem um ríkir víðtæk sátt.“
Tveir af þeim dómurum sem Sigríði skipti út hafa ákveðið að kæra skipunina. Annar þeirra er Ástráður Haraldsson, en hann var einnig metinn meðal fimmtán hæfustu. Ástráður og stjórnmálaskoðanir hans höfðu meðal annars verið til umfjöllunar í háðsgrein í vefriti sem meðal annars var ritstýrt af Sigríði Andersen, en Ástráður hafði þá gegnt trúnaðarstörfum fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð og Alþýðubandalagið á árum áður.
Hinn er Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður. „Það er valdníðsla þegar stjórnvald misnotar opinbert vald með þeim hætti að ólögmæt og ómálefnanleg sjónarmið, svo sem vinátta, flokkshagsmunir eða óvild, ráða ákvörðun þess,“ sagði Jóhannes þegar hann tilkynnti að hann hygðist kæra íslenska ríkið vegna málsins. „Ég, sem umsækjandi um embætti dómara við Landsrétt, hæstaréttarlögmaður og borgari í þessu landi, get ekki sætt mig við að réttur sé brotinn á einstaklingum, eins og hér háttar til, án þess að bregðast við. Háttsemi af þessu tagi á ekki að líðast,“ sagði Jóhannes Rúnar í yfirlýsingu sinni til fjölmiðla vegna málsins.
Athugasemdir