Eiríkur Jónsson ritstjóri Séð og heyrt segir í samtali við Stundina að hluti þess sem skrifað var á vef tímaritsins um Margréti Gísladóttur, fyrrum aðstoðarkonu Gunnars Braga, verði leiðrétt bæði í netgrein og í næsta tölublaði á áberandi hátt.
Sú fullyrðing að hún hafi verið færð um ráðuneyti að beiðni eiginkonu Gunnars Braga verði þó ekki leiðrétt. „Ég var einmitt að fylgjast með þessu. Þarna hafa orðið mistök sem verða leiðrétt, og búið að leiðrétta að hluta. Þetta var Glaumbær en ekki Glæsibær, og Gunnarson en ekki Guðmundsson. Það er alveg rétt. Aðalmálið stendur svona,“ segir Eiríkur Jónsson.
Eðli dálksins
Máli sínu til stuðnings bendir hann á að þessi orð hafi fallið í dálknum „heyrt“. „Þetta er tekið upp úr blaðinu. Þetta er í dálkinum „heyrt“ sem er eins og „sagt er“ og þetta er sagt. Það stendur ekki „satt er“ heldur „sagt er“. Það munur á „satt er“ og „sagt er“. Við getum ekki leiðrétt að sagt sé að svona sé. Það er bara eðli dálksins. Svona dálkar eru þekktir víða um heim og hafa verið frá örófi alda og munu alltaf vera,“ segir Eiríkur.
Hafnar kvenhatri
Hann hafnar því alfarið að ummælin byggist á kvenhatri. „Það er bara út í hött. Það er ekkert kvenhatur hér. Ég veit ekki hvað er verið að tala um þegar talað er um kvenhatur. Þetta snýst ekkert um það og þú veist það líka. Það er ekkert kvenhatur á Séð og heyrt. Séð og heyrt elskar konur,“ segir Eiríkur.
„Ef ég væri karlmaður væri öllum sama“
Í samtali við Stundina segir Margrét sögusagnir um meint samband við Gunnar Braga Sveinsson einfaldlega birtingarmynd kvenhaturs í samfélaginu. „Þetta er vandræðalegt og ógeðslega kjánalegt. Það myndi enginn segja þessar sögur ef ég væri karlmaður. Ef ég væri karlmaður væri öllum sama. Þetta er ein birtingarmynd þess,“ segir Margrét.
Athugasemdir