Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efast um að Mjólkursamsalan hafi í raun og veru gerst sek um brot á samkeppnislögum. Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, en Gunnar Bragi er fyrrverandi starfsmaður Kaupfélags Skagfirðinga sem er hluthafi í Mjólkursamsölunni og hagsmunaaðili í málinu.
Samkeppniseftirlitið hefur sektað Mjólkursamsöluna um 480 milljónir króna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum og misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sinni. Gunnar Bragi, sem er æðsta stjórnvald á sviði landbúnaðarmála á Íslandi, efast hins vegar um að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins standist skoðun.
Áður en Gunnar Bragi hóf afskipti af landspólitík starfaði hann meðal annars á verslunarsviði Kaupfélags Skagfirðinga árin 2000 til 2002 og þar á eftir sem framkvæmdastjóri Ábæjar til 2007. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að ráðherrann sé náinn Þórólfi Gíslasyni kaupfélagsstjóra sem situr í stjórn Mjólkursamsölunnar. Haft var eftir Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, í Fréttatímanum á dögunum að Þórólfur hefði beinlínis haft Gunnar Braga í vasanum.
„Mjólkursamsalan er fyrirtæki sem er eins og allir vita í einokunarstöðu. Um það gildir ákveðnar reglur og þeim ber að fara eftir þeim,“ sagði Gunnar Bragi í viðtalinu á Stöð 2 í gær. „Það kemur í ljós hvort þeir hafi brotið af sér eða ekki. Ég hef síður trú á því að þeir hafi brotið af sér, þetta er fyrirtæki sem í gegnum tíðina hefur sýnt samfélaginu mikla ábyrgð.“
Athugasemdir