Píratar eru eini flokkurinn á Alþingi sem ekki tekur þátt í flutningi frumvarps til laga um breytingu á útlendingalögum. Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði fram frumvarpið síðastliðinn föstudag, en Helgi Hrafn Gunnarsson, fulltrúi Pírata í nefndinni, telur frumvarpið ekki vera til þess fallið að tryggja hælisleitendum sanngjarna og skilvirka málsmeðferð. „Auðvitað gengur flutningsmönnum gott eitt til, en ég er samt bara ekki sammála þeim um að þetta sé rétt leið,“ segir hann í samtali við Stundina.
Flutningsmenn eru þau Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar, og Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokknum, Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson og Haraldur Einarsson úr Framsóknarflokknum, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir úr Samfylkingunni, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir úr Vinstri grænum og Róbert Marshall úr Bjartri framtíð. Verði frumvarpið að lögum munu stjórnvöld geta sent hælisleitendur sem koma frá „öruggum upprunaríkjum“ úr landi um leið og Útlendingastofnun hefur úrskurðað í málum þeirra. Í þessu samhengi er vísað til hælisumsókna sem séu „bersýnilega tilhæfulausar“. Auk þess verða hælisleitendur sviptir réttinum til að koma fram fyrir kærunefnd útlendingamála.
Athugasemdir