Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á í vök að verjast á Facebook-síðu sinni þar sem fjöldi öryrkja og ellilífeyrisþega eys hann skömmum. Tilefnið er stöðuuppfærsla sem hann birti í gær þar sem fram kemur að gera megi ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 8,9 prósent fyrir árið 2016. Þykir mörgum þetta skammarlega lítil hækkun þegar tekið er mið af launa- og verðlagsþróun. Aðrir þakka Bjarna og hvetja hann til dáða.
„Allt of lítið og allt of seint, hvar eru lög um að bætur fylgi lægstu launum?“ skrifar hneykslaður Facebook-notandi. Annar segir: „Bjarni, þú sýndir okkur í verki hvaða áherslu þú leggur á að styðja betur við þá sem minna mega sín þegar þú settir á matarskattinn og skattlagðir matinn út af okkar borðum.“ Enn einn veltir fyrir sér hvort ráðherra sé að gera að gamni sínu: „Nú gekkstu fram af mér, er komin 1 apríl strax eða ertu svona mikil húmoristi? Þetta er fáránlegt og þú veist það sjálfur sama hvað þú reynir að svara þessu þá veistu að þetta er bull og þvæla og við eigum heimtingu á hækkun bóta og í raun aftur á bak til 2009.“ Loks spyr miðaldra kona hvort Bjarni myndi sjálfur sætta sig við hækkunina. „Veistu hvað húsaleiga er há? Veistu að fólk er orðið auralaust 10. hvers mánaðar? Veistu að fólk er að taka líf sitt í hrönnum?“
Þá leggur frændi Bjarna orð í belg: „Ég held frændi að þú gerir þér ekki grein fyrir því hve kjör margra öryrkja eru slæm. Sjálfur er ég ekki í hópi hinna verst settu en ég þekki ungt fólk sem hefur innan við 200 þúsund á mánuði og þarf að leigja húsnæði, að vísu frekar lága leigu hjá samtökum.“
Bjarna finnst leitt að sitja undir ásökunum um að hann skilji ekki stöðu þeirra sem standa höllum fæti. „Með fullri virðingu, hver dæmir um það hvort ég geri mér grein fyrir stöðu öryrkja eða annarra sem höllum fæti standa. Ert það þú?“ spyr hann og bætir við: „Vissulega er staða margra slæm. Það leysist ekki af sjálfu sér eða á einni nóttu og hefur lengi verið þannig að margir hafa haft of lítið milli handanna. Við þurfum að stefna að því að gera betur en hvergi á byggðu bóli hefur slíkur vandi verið leystur í eitt skipti fyrir öll.“
Strokar stundum út
Bjarni Benediktsson ræddi um samskipti á samfélagsmiðlum í föstudagsviðtali Fréttablaðsins um helgina. „Menn hafa fyrir því að fara inn á Facebook-síðuna hjá manni og taka mjög djúpt í árina,“ sagði Bjarni og bætti því við að hann hefði ekki alltaf tíma til svara þeim athugasemdum sem settar eru fram.
Þá er eftirfarandi haft eftir ráðherranum: „En ég gef mér stundum tíma, þegar þannig stendur á. Það kemur mér mjög á óvart hvað fólk er tilbúið til þess að leggja á sig bara til þess að hreyta ónotum í aðra, það er eiginlega alveg ótrúlegt. Það er skuggahliðin á þessari stórkostlegu byltingu sem netið er. Að gefa hverjum og einum tækifæri til að tjá sig hvenær sem er. Skuggahliðin er sú að margir missa sig finnst mér. Það verður bara að horfa framhjá því og leyfa því að gerast.
Ég hef ekki verið að loka á þann möguleika fyrir fólk að tjá sig um það sem ég set inn á Facebook. Þeir sem ganga of langt verða fyrir því að ég kasta þeim út eða ég stroka út. Mér finnst menn ekkert eiga opinn, sjálfsagðan rétt á því að fara inn á mína síðu og segja hvað sem er um mig eða það sem ég er að segja. Ég nenni ekkert endilega að vera svara því öllu.“
Athugasemdir