Ný ríkisstjórn hefur ekki komið sér saman um töluleg markmið að því er varðar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á kjörtímabilinu. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
„Fyrst er að fá stöðuna algjörlega upp á borðið, svo er að fara í þá aðgerðaáætlun sem boðuð er,“ sagði Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra þegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, spurði hana um málið.
Björt vísaði til skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu loftslagsmála á Íslandi og sagðist hafa fengið innsýn í skýrsluna enda væru drög að henni tilbúin. „Ég hef fengið innsýn í hana og staðan er ekkert voðalega góð. Það er alveg á hreinu að við þurfum að hafa okkur öll við,“ sagði Björt.
Skömmu seinna kom í ljós að Björt hafði aðeins séð eina mynd úr skýrslunni. „Ég hef bara verið umhverfisráðherra í nokkra daga,“ sagði hún.
Parísarsamkomulagið notað sem viðmið
Í fyrirspurn sinni sagðist Rósa Björk sakna þess að hafa hvergi séð hver töluleg markmið ríkisstjórnarinnar væru að því er varðar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, hvorki hversu mikið ætti að draga úr losun né heldur fyrir hvaða tíma ætti að ná markmiðunum. Þá spurði hún: „Ætlar ríkisstjórnin að fylgja stefnu Evrópusambandsins um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030? Eða ætlar hún jafnvel að setja fram metnaðarfyllri markmið?“
Björt sagðist hafa verið að leita að þessu hjá sér, enda hefði hún einmitt verið með tölulegar upplýsingar. „Fyrst og fremst viljum við taka punktstöðuna,“ sagði svo Björt og bætti við: „Núna er væntanleg og er reyndar komin í drögum, frétti ég síðast í gær, loftslagsskýrsla unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um stöðuna á Íslandi. Ég hef fengið innsýn í hana og staðan er ekkert voðalega góð. Það er alveg á hreinu að við þurfum að hafa okkur öll við. Það þurfa öll ráðuneyti að gera. Allar stjórnsýslustofnanir þurfa að vera á sömu blaðsíðu hvað það varðar að fara saman í þennan leiðangur.“
Athugasemdir