Ólafur Ólafsson fjárfestir, sem leiddi blekkingarfléttu til að kaupa Búnaðarbanka Íslands af ríkinu, hefur birt varnarræðu sína á vefsvæðinu soluferli.is sem andsvar við niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans.
Ólafur, sem neitaði að koma fyrir nefndina á meðan hún vann skýrslu um einkavæðinguna, leggur hins vegar allt í sölurnar núna. Hluti af ræðu hans snýst um að benda á pólitíska spillingu við einkavæðingu bankanna. „Pólitísk íhlutun í ferlinu hafði áhrif á atburðarrásina og ákvarðanir þátttakenda,“ segir Ólafur meðal annars.
Ólafur tók þátt í tilraun til að kaupa Landsbanka Íslands af ríkinu, sem á endanum var seldur til Samson-hópsins undir forystu Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar, þrátt fyrir að hópurinn hefði átt lægsta tilboðið.
„Leiksoppar í pólitísku leikriti“
Ólafur upplifði pólitískt leikrit við einkavæðingu Landsbanka Íslands eftir að hann var boðinn til sölu með auglýsingu sumarið 2002. S-hópur Ólafs hafði reynt að kaupa Landsbankann, en hæsta tilboði var ekki tekið.
„Þrátt fyrir að Björgólfsfeðgar hafi boðið lægsta verðið; ég endurtek lægsta verðið, þá voru þeir valdir til einkaviðræðna við ríkið um kaupin á Landsbankanum. Þegar forsendur fyrir mati einkavæðingarnefndar á tilboðum í bankann voru síðan opinberaðar, kom í ljós að verðið hafði aðeins 20% vægi, ég endurtek, 20% vægi. 80% af væginu voru pólitískar forsendur sem ég tel að hafi verið sérsniðnar til að stýra bankanum í hendurnar á Björgólfsfeðgum,“ segir Ólafur í ræðunni.
„Ég var verulega ósáttur við það hvernig staðið var að sölunni á Landsbankanum. Það rann upp fyrir mér að við sátum aldrei við sama borð og Samson og áttum í raun aldrei kost á að kaupa Landsbankann þrátt fyrir hærra verð. Við höfðum eytt gríðarlegum tíma og fjármunum í undirbúning tilboðsins, til einskis. Við vorum hafðir að leiksoppum í pólitísku leikriti.“
Sagði af sér í einkavæðingarnefnd
Ólafur vísar í afsögn Steingríms Ara Arasonar úr einkavæðingarnefnd máli sínu til stuðnings. Steingrímur Ari útskýrði afsögn sína í bréfi til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra 10. september 2002, eftir að ákvörðun var tekin um að ganga til viðræðna við Samson-hópinn, þrátt fyrir að hann hefði fært fram lægsta tilboð. „Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðara tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég hef setið sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 og aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum.“
Steingrímur Ari ræddi einnig um afsögn sína í útvarpsviðtali.
Pólitískar ráðningar úti um allt
Þeir ráðherrar sem helst gátu haft áhrif á einkavæðingu bankanna voru Davíð Oddsson forsætisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra. Saman sátu þessir ráðherrar í ráðherranefnd um einkavæðingu.
Ólafur Ólafsson bendir á að stjórnmálaflokkarnir höfðu komið pólitískum fulltrúum fyrir alls staðar í kerfinu. „Bankastjórar ríkisbankanna voru ávallt ráðnir pólitískt. Bankaráðin voru ætíð skipuð pólitískt. Þannig var formaður stjórnar Landsbanka Íslands, Helgi S Guðmundsson, sem gengdi þýðingarmiklum embættum innan Framsóknarflokksins. Varaformaður stjórnar Landsbankans var Kjartan Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Sjálfstæðisflokksins, og nánasti samstarfsmaður Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Kjartan var áfram varaformaður Landsbankans eftir sölu ríkisins þar til bankinn féll, hvernig sem á því stóð. Formaður bankaráðs Búnaðarbankans var Magnús Gunnarsson sem tilheyrði Eimreiðarhópnum svo kallaða og fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands,“ segir Ólafur meðal annars.
Segir Valgerði hafa reynt pólitískt inngrip
Að sögn Ólafs reyndi Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, að fá S-hópinn til að sameinast Kaldbaki í tilboðinu til ríkisins um kaup á Búnaðarbankanum. „Stjórnarformaður Kaldbaks var Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins,“ segir Ólafur. „Þá gerist það að S-hópurinn var boðaður til fundar með stjórnvöldum. Þar sem ég var fjarverandi gat ég ekki mætt á þennan fund, en ég fékk upphringingu af fundinum. Mér hafði áður verið tjáð að Valgerður Sverrisdóttir þrýsti mjög á, um að sameina S-hópinn og Kaldbak í einn væntanlegan kaupanda. Ég áttaði mig á því hvað bjó að baki hjá Valgerði með hliðsjón af pólitísku baklandi hennar fyrir norðan. Það kom á daginn að tilgangur fundarins var nákvæmlega sá, að reyna að fá okkur til samstarfs við Kaldbak. Ég þvertók fyrir að taka þátt í pólitískum hrossakaupum og hafnaði með öllu að fara í þetta samstarf. Annað hvort keyptum við hlutabréfin eða þeir. Fyrir mér voru kaupin á hlutabréfum í Búnaðarbankanum hrein og klár viðskipti og áttu eingöngu að vera byggð á eðlilegum viðskiptalegum forsendum. Það var aldrei minnst á þetta aftur.“
Pólitísk tengsl í S-hópnum
S-hópurinn var hins vegar pólitískt tengdur. Einn af lykilmönnum hópsins var Finnur Ingólfsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn, og pólitískt skipaður seðlabankstjóri.
Þá var Þórólfur Gíslason, þekktur, umsvifamikill framsóknarmaður úr Skagafirði, einn af forsprökkum hópsins. Sjálfur segist Ólafur aldrei hafa verið pólitískt tengdur.
Það hefur hins vegar vakið athygli að Ólafur afsalaði sér húsi til Framsóknarflokksins mánuði fyrir einkavæðingu Búnaðarbankans. Í húsinu, sem stendur við Hverfisgötu, eru starfræktar skrifstofur Framsóknarflokksins. Flokkurinn fékk húsið á góðu verði, vel undir fasteignamati. Mánuði eftir kaupin var Ólafur einn þeirra sem undirrituðu kaupsamning að Búnaðarbankanum af íslenska ríkinu.
Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis á einkavæðingu Búnaðarbanks var eindregin, að Ólafur hefði blekkt ríkið og almenning til að telja að í kaupendahópi hans væru alþjóðlegar fjármálastofnanir. Þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi verið leppur í kaupunum, en lögð hafði verið áhersla á að erlendir aðilar kæmu að kaupum á kjölfestuhlut í bankanum. „Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8% hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi. Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar,“ sagði í niðurstöðu nefndarinnar.
Ólafur birtir „ávarp“ á sérstöku vefsvæði sem almannatengslafyrirtækið Kom heldur úti, þar sem hann heldur fram sakleysi sínu, bendir á vafasama aðkomu annarra og gagnrýnir störf rannsóknarnefndarinnar.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vill ekki rannsaka nánar einkavæðingu Landsbankans.
Athugasemdir