„Svar mitt er einfalt. Jú, það er ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli,“ sagði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á Alþingi rétt í þessu, um hvort rannsaka ætti nánar einkavæðingu ríkisbankanna árið 2003.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lýsti í gær andstöðu sinni við að nánar yrði rannsakað hvernig ríkið stóð að einkavæðingu á Landsbankanum og Búnaðarbankanum árin 2002 til 2003. Að mati Bjarna hefur einkavæðingin verið rannsökuð nægilega vel. Hann vildi þó draga lærdóm af því sem gerðist í einkavæðingunni. „Fyrir mína parta er ekkert aðkallandi að skoða varðandi sölu bankanna sem átti sér stað fyrir nærri fimmtán árum,“ sagði hann.
Í gær birtist skýrsla rannsóknarnefndar sem sýndi að aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hóps Ólafs Ólafssonar athafnamanns, Finns Ingólfssonar og fleiri, að kaupum á kjölfestuhlut Búnaðarbanka af ríkinu, hefði verið blekking.
Benedikt lét orðin falla í svari við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur um afstöðu hans til frekari rannsókna á einkavæðingu ríkisins á fjármálastofnunum.
Ræðir við Fjármálaeftirlitið um eignarhald Arion banka
Benedikt greindi frá því á Alþingi í morgun að hann hefði skrifað Fjármálaeftirlitinu bréf með spurningum um raunverulegt eignarhald kaupenda á þriðjungshlut í Arion banka.
„Aftur er svar mitt einfalt. Ég tel að það sé afar mikillvægt að það sé gagnsætt ferli við sölu bankanna. Ferli sem er hafið yfir alla gagnrýni. Ferli þar sem allir sitja við sama borð,“ sagði hann.
Hann sagði stofnanir hafa brugðist herfilega á sínum tíma. „Það má ekki endurtaka sig“.
Athugasemdir