„Ég var sautján ára þegar mér var hópnauðgað af fimm strákum sem voru saman í vinahópi. Þetta voru strákar sem ég var búin að vera mikið með og gerðist heima hjá einum þeirra. Þeir tróðu allskonar hlutum inn í mig og svo var mér nauðgað af einum þeirra. Ég barðist aðeins um en svo fraus ég þar til þessu lauk. Þá fór ég heim og sagði engum frá þessu fyrr en hálfu ári síða. Eftir að þetta gerðist þá fór ég tvisvar sinnum aftur heim til hans af því að ég kenndi mér um. Af því að ég gerði ekki neitt, af því að mér fannst þetta vera mín sök og ég var að leitast eftir því að þeir myndu segja að þetta væri þeirra sök, eitthvað sem tæki þessa sektarkennd frá mér.“
Þetta segir Ragnheiður Helga Bergmann Hafsteinsdóttir. Hún er ein þeirra kvenna sem hafa lýst viðbrögðum sínum eftir ofbeldi inni á lokaðri síðu gegn nauðgunarmenningu, en nú eru konur einnig að deila reynslu sinni inni á Beauty Tips og Twitter undir myllumerkinu #eftirkynferðisofbeldi.
Lýsti samskiptum brotaþola
Það gera þær í kjölfar umræðu sem skapaðist í vikunni, þegar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður manns sem var kærður fyrir nauðgun, sagði í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að mikil samskipti hefðu verið á milli umbjóðanda hans og stúlkunnar sem kærði nauðgun. Í því máli viðurkennir umbjóðandi hans að hafa átt samræði við stúlkuna en sagði það hafa verið með samþykki beggja aðila. „Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna að þau eiga í miklum og góðum samskiptum í um það bil mánaðarskeið eftir þetta. Þar á meðal strax nokkrum klukkutímum eftir að kynmökin eiga sér stað.“
Spurður nánar út í þessi samskipti sagði Vilhjálmur: „Þetta eru samskipti á Facebook og þetta eru tólf blaðsíður. Þau eiga sér stað um langt skeið. Þessi samskipti eru á góðu nótunum. Þar er meðal annars farið yfir atburði þessa kvölds, hvort þetta hafi spurst út í skólanum og annað slíkt. En aldrei minnst einu orði á það að einhver þvingun eða refsiverð háttsemi hafi átt sér stað. Það auðvitað veitir vísbendingu um það að þetta sé hreint og klárt kjaftæði, svo ég kveði skýrt að orði.“
Þessi samskipti segir hann hafa staðið í 25 daga.
„Eftir að þetta gerðist þá fór ég tvisvar sinnum aftur heim til hans af því að ég kenndi mér um.“
„Ég varð svo reið“
Í kjölfarið deildi Ragnheiður Helga sögu sinni. Hún segir af og frá að allar konur bregðist strax við með reiði. „Oft eru konur giftar manninum sem nauðgaði þeim. Ég varð svo reið út af þessari umræðu. Það er fullkomlega eðlilegt að bregðast allskonar við ofbeldi. Það er algengt að þolendur láti sem ekkert sé og jafnvel eðlilegt. Það er svo skrýtið ferli sem fer í gang þegar þér er nauðgað. Þú fyllist sektarkennd og viðbjóði og kennir sjálfri þér um.
Í mínu tilviki þá gerðist þetta í litlu bæjarfélagi og ég gat ekki annað en rekist á þessa stráka stundum. Ég reyndi að forðast þá, en þegar ég hitti þá reyndi ég að halda uppi eðlilegum samskiptum, eins og ekkert hefði í skorist. Eins og gerist. Ég trúði þessu ekki. Ég hélt að þeir hlytu að hafa mátt þetta því þetta voru vinir mínir.
Það eru 24 ár síðan þetta gerðist en það er ekki fyrr en núna á þessu ári sem ég er að fá það staðfest að þetta var ekki mín sök.“
Fyrirgefur aldrei ofbeldið
Hún segist hafa fengið afsökunarbeiðni frá stráknum sem nauðgaði henni tveimur árum eftir að það gerðist. „Hann sagði að þetta hefði verið hræðilegt og hann þyrfti að lifa með það á samviskunni. Í sumar sagði ég sögu mína á Pressunni og í kjölfarið höfðu tveir samband. Annar tók ekki þátt í þessu en baðst afsökunar á að hafa ekki komið mér til varnar. Hinn margbaðst afsökunar á því sem hann gerði.“
Hún segir að hún muni aldrei fyrirgefa ofbeldið sem þeir beittu hana. Það að hún hafi verið í samskiptum við þá að því loknu breyti engu um það sem þeir gerðu. „Þeir eyðilögðu líf mitt. Ég vann aldrei úr þessu á sínum tíma og í dag er ég enn að glíma við áfallastreituröskun á háu stigi og kvíða. Ég mun aldrei fyrirgefa þeim ofbeldið sem þeir beittu mig.“
Lét sem ekkert væri
Þetta er ekki eina atvikið sem Ragnheiður Helga lenti í. Ári síðar fór hún á Þjóðhátíð í Eyjum þar sem hún hitti mann sem hún var búin að þekkja frá því að hún var lítil og leit upp til. „Við fórum eitthvað að spjalla og hann sagðist vera með vín inni í tjaldi. Ég fór með honum þangað, þar sem hann fór að kalla mig druslu og fleiri ljótum nöfnum og nauðgaði mér. Eftir fyrri nauðgunina hafði ég farið að drekka mikið og sofa hjá og fannst að allir mættu nota mig. Ég fraus aftur og gat ekkert gert til að spyrna við þessu. Ég trúði ekki að þetta væri að gerast.“
Aftur lét hún sem ekkert væri. „Þegar hann hafði lokið sér af klæddi ég mig í og hellti í mig áfengi þar til ég var orðin svo ofurölvi að ég fór í óminnisástand. Ég var á áfram í Eyjum og tilkynnti þetta ekki. Aftur kenndi ég mér um.
Þessa helgi rakst ég nokkrum sinnum á þennan mann. Hann spjallaði við mig eins og ekkert væri. Á einhverjum tímapunkti reyndi hann jafnvel að fá mig aftur með sér inn í tjald. Ég fór nú ekki með honum en gat ekki annað en talað við hann. Af því að ég var skíthrædd við hann og full af sektarkennd.
Þessi maður býr í sama borgarhluta og ég. Ég rekst reglulega á hann, en ég hef aldrei nefnt þetta við hann. Ég stundum íhugað að gera það en mér finnst ég ekki geta gert það. Hann á fjölskyldu. Ég veit ekki einu sinni hvort hann muni eftir þessu.“
Athugasemdir