Talsverðrar óánægju gætir meðal áhrifafólks og trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vegna embættisverka Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á yfirstandandi kjörtímabili. Ragnheiður sækist eftir endurkjöri sem oddviti kjördæmisins og hafa aðstoðarmenn hennar komið að kynningu og undirbúningi prófkjörsbaráttunnar. Þetta leggst illa í sjálfstæðismenn sem Stundin hefur rætt við. „Það á ekki hvaða frambjóðandi sem er kost á að ráða til sín kosningastjóra á kostnað ríkisins,“ segir einn af viðmælendum blaðsins.
Ragnheiður Elín var framan af með einn aðstoðarmann en skömmu eftir að ljóst varð að kosningar yrðu haldnar að hausti réði hún sér annan, Evu Magnúsdóttur, sem hóf störf 2. júní síðastliðinn, sama dag og síðasti þingfundur fyrir sumarfrí fór fram. Mörgum flokksfélögum Ragnheiðar Elínar finnst ráðning nýs aðstoðarmanns svo stuttu fyrir kosningar á gráu svæði. Ekki síst vegna þess að dæmi eru um að aðstoðarmennirnir hafi í sumar staðið í kynningarmálum fyrir prófkjör ráðherrans, meðal annars á lokuðum en fjölmennum Facebook-hópi trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.
Athugasemdir