Halla Tómasdóttir segir það ekki hafa verið einfalda ákvörðun að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þegar hún var fyrst hvött til að gefa kost á sér var svarið afdráttarlaust nei. Embættið höfðaði ekki til hennar. Henni fannst það einangrað, í of mikilli fjarlægð frá þjóðinni og taldi að í því væri ekki endilega gagn. Það erfiðasta við ákvörðunina snéri hins vegar að börnunum hennar tveimur, Tómasi Bjarti fjórtán ára og Auði Ínu tólf ára, og móðurlegri umhyggju fyrir því að veita þeim áfram eðlilegt líf.
„Mér leið ekki vel á meðan ég var að reyna að taka þessa ákvörðun, en um leið og ég tók stökkið þá leið mér vel,“ segir Halla, og kemur sér fyrir í tveggja manna sófa, gegnt blaðamanni, á kosningaskrifstofu sinni í Kópavoginum. Hún segir að tvennt hafi gert útslagið um að hún ákvað að endingu að bjóða sig fram.
Í fyrsta lagi hafi það verið ungt fólk sem kom að máli við hana, fólk sem hafði meðal annars unnið með henni að Þjóðfundinum árið 2009 og að Alþjóðlegu jafnréttisráðstefnunni WE 2015 sem haldin var í Hörpu á síðasta ári, og hvatti hana til að bjóða sig fram. „Ungt fólk sem vill horfa til framtíðar og innleiða þessi grunngildi sem samþykkt voru á þjóðfundinum. Ungt fólk sem vill umbreytingar í samfélaginu. Fyrir mér snúast þessar kosningar að miklu leyti um val milli fortíðar og framtíðar. Ég kýs framtíðina.“
Athugasemdir