Stefnu ríkisstjórnarinnar um að efna ekki til ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju verður ekki fylgt eftir með lagabreytingum.
Þetta kom fram í svörum Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra ríkisstjórnarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær.
Ráðherra fullyrti að í rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga væri „talað um náttúru- og umhverfisvernd“. Slík orð er hvergi að finna í lögunum eins og bent hefur verið á. Þar er einungis að finna skilyrði um að verkefni skuli standast lög um mengunarvarnir og að liggja skuli fyrir hvort framkvæmdir séu háðar umhverfismati. Verkefni sem Björt hefur vísað til sem „mengandi stóriðju“, svo sem álver og kísilmálmver, geta hæglega staðist slík skilyrði.
Oddný G. Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, spurði Björt um stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart mengandi stóriðju og hvernig stefnan yrði framkvæmd:
„Ívilnanir til nýfjárfestinga eru veittar samkvæmt rammalöggjöf um ívilnanir frá árinu 2015. Þar eru talin upp ýmis skilyrði sem verkefni þarf að uppfylla til að geta notið ívilnana. Hvergi er vikið að skilgreiningu á mengandi stóriðju í lögunum. Hvernig á að framfylgja því að mengandi stóriðja fái ekki ívilnanir á grundvelli laga sem í gildi eru? Nær hugtakið yfir verkefni sem falla undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir sem Ísland er aðili að? Slík verkefni geta farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og fengið framkvæmda- og starfsleyfi á grundvelli íslenskra laga. Má skilja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svo að hér megi setja af stað ný verkefni sem gætu kallast mengandi stóriðja en þau fái bara ekki fjárfestingarsamning með ívilnunum?“
Í svari sínu sagðist Björt ekki telja lagabreytingu nauðsynlega. „Ég tel svo ekki vera eftir að við skoðuðum mjög vel með atvinnuvegaráðuneytinu nákvæmlega þennan rammasamning um nýfjárfestingar. Í honum koma vissulega ekki fram orðin mengandi stóriðja en það sem þó kemur þar fram og rímar mjög vel við áherslur okkar, þá grænu atvinnustefnu sem nú er tekin við, er að í rammalöggjöfinni er talað um náttúru- og umhverfisvernd. Við ætlum að draga þá þætti ofar og hafa þá ofar en hina. Sú þriggja manna nefnd sem er í ráðuneytinu hefur fengið þau tilmæli og veit að það er ekki í stefnu ríkisstjórnarinnar að veita mengandi stóriðju ívilnanir og hún ætlar ekki að gera það,“ sagði hún en svaraði ekki þeirri spurningu hvort gefið yrði grænt ljós á mengandi stóriðju án fjárfestingarsamnings með ívilnunum.
Oddný benti þá á að innlendir sem erlendir fjárfestar þyrftu á skýrum og fastmótuðum reglum að halda. „Því er svo mikilvægt að hæstvirtur ráðherra og ríkisstjórnin svari afdráttarlaust hvernig og á hvaða lagagrundvelli hún ætlar að framfylgja því að mengandi stóriðja fái ekki fjárfestingarsamninga við stjórnvöld þótt hún uppfylli öll skilyrði þess samkvæmt núgildandi lögum,“ sagði hún og bætti við: „Fá þeir sem leita nú upplýsinga skýr svör um lög, reglur og viðmið sem setja mörkin milli mengandi stóriðju og annarra verkefna?“
Í svari sínu gerði Björt aftur að umtalsefni meintar málsgreinar um umhverfis- og náttúruvernd í rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga. „Svo getum við háttvirtur þingmaður farið yfir rammalöggjöfina saman og fundið þar málsgreinar sem fjalla sérstaklega um umhverfis- og náttúruvernd og hvernig við getum alveg látið það ríma við þá rammalöggjöf sem nú er í gildi og stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar, sem er jú allrar ríkisstjórnarinnar, ekki sérstakra ráðherra. Þótt þeir eigi heima í atvinnuvegaráðuneytinu er það sami stjórnarsáttmáli sem á heima þar og í ráðuneyti mínu, umhverfisráðuneytinu,“ sagði hún. Áður hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagt að yfirlýsingin gegn mengandi stóriðju hafi ekki áhrif á nein verkefni sem séu á borði síns ráðuneytis.
Rammalöggjöfin um ívilnanir til nýfjárfestinga var samþykkt á Alþingi þann 29. júní árið 2015. Fjallað er um þá þriggja manna nefnd sem Björt vísar til í 4. gr. laganna og í 5. gr. er tiltekið hvaða skilyrðum skuli fullnægt við mat á því hvort veita skuli ívilnun til nýfjárfestinga. Þar er hvergi „talað um umhverfis- og náttúruvernd“ og engar slíkar málsgreinar er heldur að finna í öðrum ákvæðum laganna.
Eitt af skilyrðunum í 4. gr., k-liður, kveður á um að „fyrir liggi upplýsingar um hvort fjárfestingarverkefnið sé háð umhverfismati samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000“. Í i-lið er sett það skilyrði „að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna hennar sé nýr eða nýlegur og uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir“. Orðalag liðanna útilokar engan veginn að áfram verði veittar ívilnanir til þess sem kallað hefur verið mengandi stóriðja en slík verkefni hafa oftast staðist umhverfismat og uppfyllt skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Athugasemdir