Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er ósammála þeirri niðurstöðu Persónuverndar að hún hafi gerst brotleg við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem lögreglustjóri á Suðurnesjum. „Nei, ég tel ekki að ég hafi brotið lög,” er haft eftir Sigríði á vef RÚV. Þetta rökstyður hún ekki frekar þótt Persónuvernd komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að verklag Sigríðar í lekamálinu hafi stangast á við 11. og 12. grein fyrrnefndra laga.
Persónuvernd er sjálfstæð stofnun sem annast eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og fer með úrskurðarvald í ágreiningsmálum er varða vinnslu, meðferð og miðlun slíkra gagna. Um Persónuvernd gildir, líkt og aðrar eftirlitsstofnanir hins opinbera, að hún á vægi sitt að miklu leyti undir því að embættismenn taki mark á úrskurðum hennar.
Braut lög
Úrskurður Persónuverndar sem Kjarninn birti á vef sínum í gær varðar ekki aðeins það embætti sem Sigríður Björk var í forsvari fyrir á sínum tíma heldur einnig verklag hennar sjálfrar, það hvernig hún sem lögreglustjóri miðlaði upplýsingum. Persónuvernd telur að með því að senda Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, skýrsludrög um málefni Tony Omos, án þess að beita sérstökum ráðstöfunum til að tryggja öryggi og án þess að skrá miðlunina í málaskrá, hafi Lögreglan á Suðurnesjum brotið 11. og 12. grein laga um persónuvernd. Fram kemur að hún hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í 1. og 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 12. gr. og ekki fylgt nánari fyrirmælum sem fram koma í 3. tölul. 7. gr. reglna nr. 299/2001. Var það á ábyrgð Sigríðar sem lögreglustjóra að tryggja að lögunum væri fylgt. Sjálf sendi hún Gísla umrætt skjal.
„Í framangreindu felst meðal annars að við sendingu skýrsludraganna og framburðarskýrslunnar í tölvupósti varð að beita sérstökum ráðstöfunum til að tryggja öryggi, s.s. dulkóðun eða læsingu með sterku lykilorði. Fyrir liggur að hvorki var beitt slíkum ráðstöfunum við miðlun áðurnefndra skýrsludraga frá Lögreglunni á Suðurnesjum til annars af aðstoðarmönnum innanríkisráðherra hinn 19. nóvember 2013 né heldur við sendingu Útlendingastofnunar á fyrrgreindri framburðarskýrslu til ráðuneytisins hinn 20. s.m,” segir í skýrslunni.
(Vert er að taka fram að í tilvitnuninni í úrskurð Persónuverndar hér að ofan er röng dagsetning tilgreind, því umræddum skýrsludrögum var ekki miðlað til aðstoðarmannsins 19. nóvember heldur 20. nóvember. Svo virðist sem um klaufavillu hjá Persónuvernd sé að ræða, því annars staðar í úrskurðinum er dagsetningin rétt).
Í niðurstöðukafla er hnykkt á þessu og bætt við: „Framangreindan skort á skráningu hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytinu telur Persónuvernd hafa farið í bága við 1. og 2. mgr. 11. gr. og 12. gr. laga nr. 77/2000.” Þetta er svo ítrekað í úrskurðarorði Persónuverndar. Víðast hvar í úrskurðinum er vísað til Lögreglunnar á Suðurnesjum en ekki aðeins lögreglustjóra. Þetta skýrist líklega af því að um tvo tölvupósta er að ræða og aðeins annar þeirra var frá lögreglustjóranum sjálfum.
Röng staðhæfing
Í yfirlýsingu sem Sigríður sendi frá sér í gær sagði hún: „Í niðurstöðu Persónuverndar kemur ekki fram að ég hafi gerst brotleg við lög þegar ég varð við ósk aðstoðarmanns Innanríkisráðherra um að senda honum skýrsludrög um málefni hælisleitanda þann 20. nóvember 2013.” Stundin útskýrði í gær að þessi fullyrðing væri í besta falli villandi, en samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar gerðist lögreglustjórinn vissulega brotleg við lög þegar hún varð við ósk aðstoðarmannsins og sendi skýrsludrögin án þess að uppfylla skilyrði 11. og 12. greinar laga um persónuvernd. Því er vert að árétta að staðhæfing Sigríðar er ekki aðeins villandi heldur beinlínis röng.
Í sömu yfirlýsingu fullyrðir lögreglustjórinn að Persónuvernd hafi komist að þeirri „niðurstöðu að miðlun skýrsludraganna hafi ekki stuðst við viðhlítandi heimild þar sem hún var ekki á meðal gagna í því máli hælisleitandans sem til meðferðar var í ráðuneytinu. Það gat ég sem sendandi hvorki vitað né tryggt.” Samkvæmt þessu telur lögreglustjórinn það ekki hafa verið á sinni ábyrgð að meta hvort viðhlítandi lagaheimild væru fyrir hendi áður en persónuupplýsingar voru sendar frá lögregluembættinu.
Þessi skoðun Sigríðar Bjarkar er einnig á skjön við niðurstöðu Persónuverndar. Bent er á það í úrskurðinum að „sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili” og í þessu tilviki „telst Lögreglan á Suðurnesjum vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fólst í miðluninni”. Af þessu má ljóst vera að lögreglustjóranum bar að vita og tryggja að persónuverndarlögum væri fylgt og viðhlítandi heimild væri fyrir hendi.
Stundin bíður eftir viðtali við Sigríði Björk vegna úrskurðar Persónuverndar.
Athugasemdir