Kona hringdi í innhringitíma Útvarps Sögu á mánudag og sagðist hafa heyrt sögu, frá ónefndum þriðja aðila, af því að dreng hefði verið nauðgað af hælisleitanda í sundlauginni á Kjalarnesi. Ummælin lét hún falla í þættinum Línan laus, í umsjón Péturs Gunnlaugssonar, í kjölfar umræðu um fjölda hælisleitenda á Arnarholti á Kjalarnesi. Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, segir í samtali við Stundina að ekkert brot af þessu tagi hafi verið tilkynnt lögreglu og ekkert sambærilegt mál væri til rannsóknar hjá embættinu. Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi hatursglæpa hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir málið mjög alvarlegt. „Það er mjög alvarlegt að láta ummæli sem þessi falla á útvarpstíma, því það er enginn fótur fyrir þeim. Ef hún telur sig hafa yfir jafn alvarlegum upplýsingum að ráða þá ráðlegg ég henni að leita niður á lögreglustöð,“ segir Eyrún.
Vill að lögregla rannsaki útvarpsstöðina
Gunnar Waage, kennari og umsjónarmaður Sandkassans.com, ætlar að senda Eyrúnu formlegt erindi í vikunni vegna hatursræðu á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu. Hann vill að lögregla rannsaki málið.
Athugasemdir