Síleski listamaðurinn Marco Evaristti braut ekki lög um náttúruvernd þegar hann hellti fimm lítrum af lífrænum matarlit ofan í hverinn Strokk við Geysi í Bláskógabyggð þann 24. apríl í fyrra. Hann var ákærður fyrir að hafa raskað umhverfi hversis þegar hverinn gaus rauðlituðu vatni „...sem sat eftir í pollum og litablettir urðu eftir á steinvölum og hverahrúðri í kringum hann, þar sem litarefnið slettist á og sat eftir um nokkurn tíma,“ eins og segir í ákærunni.
„Ákæruvaldið vildi hinsvegar meina að auk þess að hafa brotið lög um náttúruvernd þá hafi listamaðurinn með framferði sínu ollið sjónrænni röskun sem hafi haft neikvæð áhrif á gesti svæðisins.“
Evaristti viðurkenndi að hafa hellt matarlitnum ofan í hverinn og kvaðst hafa verið einn að verki en samkvæmt honum var um að ræða „gjörning, listviðburð eða landslagslist, það er hann hafi notað landslag sem nokkurs konar striga fyrir málverk. Fyrir honum hafi vakað að annast umhverfið og náttúruna, búa til fallegt listform og hafi hann við það notað efni sem með öllu hafi verið skaðlaust náttúrunni.“
Vildi vekja athygli á umhverfinu
Hann hafnaði hins vegar því að hafa með þessum gjörningi sínum raskað hvernum eða umhverfi hans og tók Evaristti fram að hann hafi vitað að litarefnið myndi hverfa á stuttum tíma. Ákæruvaldið vildi hinsvegar meina að auk þess að hafa brotið lög um náttúruvernd þá hafi listamaðurinn með framferði sínu ollið sjónrænni röskun sem hafi haft neikvæð áhrif á gesti svæðisins. Evaristti sagði hinsvegar að markmið hans með gjörningnum hafi verið að vekja athygli á umhverfinu.
Evaristti var handtekinn og færður til yfirheyrslu lögreglu stuttu eftir að hafa hellt umræddu litarefni í hverinn og boðið að ljúka málinu með því að greiða hundrað þúsund krónur í sekt. Hann neitaði hins vegar að greiða sektina og sagðist ætla með málið fyrir dómstóla sem hann og gerði með fyrrgreindri niðurstöðu. Listamaðurinn býr í Danmörku og hefur vakið athygli víða um heim fyrir gjörninga sína í náttúrunni, meðal annars í Noregi og Kanda.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða að upphæð 552.420 króna, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Athugasemdir