Bjarni Már Magnússon, lektor við Háskólann í Reykjavík, var boðaður á sérstakan fund í utanríkisráðuneytinu vegna erindis sem hann hugðist flytja í Shanghæ í Kína. Fundarboðið barst nokkrum dögum eftir að Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands og dómari við Alþjóðlega hafréttardóminn, hafði sent Bjarna Má tölvupósta þar sem þrýst var á lektorinn að sníða erindið að utanríkishagsmunum Íslands. Það var Birgir Búason, fyrrum undirmaður Tómasar þegar sá síðarnefndi var þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins, sem sendi Bjarna boð um fundinn í ráðuneytinu undir þeim formerkjum að þar ætti að ræða landgrunnsmál.
Ráðuneytið hefur áður svarið af sér að hafa haft nokkra aðkomu að málinu. Í nýlegu svari Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, við fyrirspurn Stundarinnar, var fullyrt að skilaboð sem Tómas sendi úr netfangi sínu hjá ráðuneytinu hefðu hvorki verið send í umboði ráðuneytisins, né hefðu tölvupóstssamskiptin tengst störfum hans hjá ráðuneytinu. Fyrrnefndur Birgir Búason og Kristján Andri Stefánsson, skrifstofustjóri laga- og stjórnsýsluskrifstofu ráðuneytisins sem einnig er formaður Lögfræðingafélags Íslands, voru á meðal þeirra sem sátu fundinn með lektornum.
Athugasemdir