Innflutningsbannið til Rússlands tekur ekki til lambakjöts, ærkjöts, hrossakjöts og niðursoðins fiskmetis í dósum. Þetta er nokkur léttir fyrir Kaupfélag Skagfirðinga sem verið hefur leiðandi í markaðssetningu á íslensku lambakjöti í Rússlandi undanfarin ár.
„Þetta kom ekki á óvart. Þarna er verið að færa Ísland og fleiri lönd yfir á bannlistann og þessar vörur eru ekki á listanum yfir þær sem er bannað að flytja inn til Rússlands frá viðkomandi löndum,“ segir Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga í samtali við Stundina. „Ég held í raun og veru að það hafi verið hálfgerð óskhyggja hjá útgerðinni og íslenskum yfirvöldum að það yrði gerður nýr listi fyrir Ísland og hin löndin sem nú hafa bæst á listann hjá Rússum. Það stóð eflaust aldrei til.“
Þann 19. nóvember í fyrra var Ágúst skipaður kjörræðismaður Rússlands, með ræðismannstign á Íslandi og aðsetur á Sauðárkróki. Aðspurður hvort honum hafi, sem kjörræðismanni, tekist að hafa áhrif á gang mála hlær hann og segir: „Nei, því miður, ég vildi að ég ætti eitthvað í þessu en þannig er það ekki.“
Athugasemdir