Kennarar í grunnskólanum Akurskóla í Reykjanesbæ hafa sent frá sér yfirlýsingu um að þeim sé nóg boðið vegna stórfelldra launahækkana stjórnmálamanna og að þeir hyggist segja upp störfum.
Yfirlýsingin, sem birtist fyrst á vef Víkurfrétta, var samþykkt á fundi kennara í Akurskóla í gær en þeim finnst lítið gert úr störfum þeirra og að nýjustu fréttir af launahækkunum ráðamanna hafi verið kornið sem fyllti mælinn.
Þá taka þeir fram að þótt kjararáð dragi ákvörðun sína tilbaka þá sé mælirinn orðinn fullur. Kennarar hafi enga þolinmæði lengur gagnvart samningaviðræðum sem „miða að því að láta fjölbreytt skólastarf passa í „Excel skjal“ og hártogunum um atriði sem litlu máli skipta.“
Vilja samræmda vinnustöðvun strax
Þá segja þeir að flótti kennara úr stéttinni sé stigvaxandi á sama tíma og færri sækja í grunnskólakennaranámið ár hvert og því sé framtíðin mjög óljós.
Kröfur kennaranna:
- Framkvæmdar verði viðeigandi aðgerðir til að framkalla samræmda vinnustöðvun grunnskólakennara strax og telja þeir sem hjá Akurskóla starfa að það sé skylda Kennarasambands Íslands að fara eftir þeim tilmælum.
- Um miðja síðustu öld voru laun alþingismanna miðuð við laun kennara og fara þeir fram á að það viðmið verði tekið upp að nýju.
Töluverður fjöldi kennara starfar við Akurskóla en samkvæmt vefsíðu skólans eru þeir tæplega þrjátíu talsins.
Yfirlýsingin í heild sinni:
Þolinmæði kennara Akurskóla er á þrotum. Við teljum að lítið sé gert úr okkar störfum og nýjustu fréttir af launahækkunum æðstu ráðamanna eru kornið sem fyllti mælinn.
Algerlega óháð því hvort kjararáð dragi sinn úrskurð til baka hafa kennarar enga þolinmæði lengur gagnvart samningaviðræðum sem miða að því að láta fjölbreytt skólastarf passa í „Excel skjal“ og hártogunum um atriði sem litlu máli skipta.
Við vitum í hverju starf okkar felst og þurfum ekki að láta skilgreina það fyrir okkur.
Núverandi ástand í stéttinni er ólíðandi og æ fleiri kennarar flýja i önnur störf, færri sækja í grunnskólakennaranámið og því er framtíðin mjög óljós. Einnig er ómögulegt að troða grunnskólum landsins í fyrrnefnt Excelskjal því þar er ekki tekið tillit til þess fjölbreytileika sem fylgir skóla án aðgreiningar.
Hvorki ríki né sveitarfélög geta lengur vikið sér undan ábyrgð og hvað þá falið sig á bak við samninganefnd sveitarfélaga. Við viljum hærri laun en ekki stöðuga sölu á réttindum okkar og krefjumst launa samkvæmt þeirri ábyrgð sem við berum í okkar starfi.
Við förum fram á að framkvæmdar verði viðeigandi aðgerðir til að framkalla samræmda vinnustöðvun grunnskólakennara strax og teljum það skyldu KÍ að fara að þeim tilmælum.
Að óbreyttu verður gripið til hópuppsagna 1. maí 2017.
Einnig bendum við á að um miðja síðustu öld voru laun alþingismanna miðuð við laun kennara og förum fram á að það viðmið verði tekið upp að nýju. Ályktun þessi var samþykkt á kennarafundi 2. nóvember 2016.
Kennarar við Akurskóla
Athugasemdir