Nokkur togstreita ríkti á Austurvelli í dag þegar tveir hópar með andstæð sjónarmið blésu til mótmæla.
Annars vegar kom saman fólk úr Íslensku Þjóðfylkingunni, nýstofnuðum stjórnmálaflokki sem beitir sér gegn fjölmenningu og vill takmarka komu innflytjenda til Íslands í enn meira mæli en gert er nú þegar. Sá hópur boðaði til mótmæla gegn nýju útlendingalögunum og krafðist þess að engin moska yrði reist á Íslandi.
Mun fleiri tilheyra þó hinum hópnum sem fjölmennti á Austurvöll til að sýna múslimum, flóttafólki og fjölmenningu stuðning. Gerði fólk hróp hvert að öðru, ekki síst eftir að hópurinn sem er vinveittur flóttafólki myndaði hring í kringum Austurvöll.
Tveir úr hópi fólksins sem mótmælti Þjóðfylkingunni tóku skilti af þjóðernissinna, hlupu með það afsíðis og brutu. Eigandi skiltisins og fleiri veittu þeim eftirför og kom til snarpra orðaskipta.
Þegar blaðamenn Stundarinnar svipuðust um á Austurvelli um hálffjögurleytið var aðeins einn lögregluþjónn sjáanlegur. Fleiri höfðu þó sendir þangað á fimmta tímanum.
Eftir að hópurinn sem mótmælti Þjóðfylkingunni hafði sungið „Velkomið flóttafólk“ í nokkrar mínútur snéru meðlimir þjóðfylkingarinnar út úr orðunum og sungu „Velkomið okkar fólk.“
Hringurinn utan um Þjóðfylkinguna hélt áfram að syngja, meðal annars: „Minni fordóma, meiri ást:“
Þjóðfylkingarfólk sneri því á haus og söng: „Engir fordómar, lesið lögin.“
Athugasemdir