Systursonur og tvö systkini Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa, segja að hann hafi viðurkennt daginn eftir opinberun Panama-skjalanna að sjóðir foreldra hans væru geymdir í aflandsfélagi í hans eigu. Þetta kom fram í umfjöllun Kastljóss í kvöld. Júlíus neitaði að svara spurningum Kastljóss vegna málsins, en segir í stuttri yfirlýsingu að það séu ósannindi að hann hafi sölsað undir sig sjóði annarra.
Í umfjöllun Kastljóss var rekin saga Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur, foreldra Júlíusar, sem á sínum tíma ráku ein stærstu fyrirtæki landsins, Ingvar Helgason hf. og Bílheima hf. Fyrirtækin skiluðu góðum hagnaði og var Ingvar sjálfur meðal auðugustu manna landsins. Það kom því mörgum á óvart þegar fyrirtækin voru seld úr höndum erfingja hans og eiginkonu fyrir 25 milljónir fimm árum eftir andlát hans. Upphófst þá mikil leit að erlendum varasjóði hjónanna en hann var enn ófundinn þegar Sigríður lést á síðasta ári.
Eftir umfjöllun Kastljóss um Panama-skjölin og aflandsfélag Júlíusar Vífils segjast systkini hans hafa lagt saman tvo og tvo. Hann hafi síðan viðurkennt að sjóðir foreldra þeirra væru geymdir í aflandsfélagi.
Hann hafi hins vegar sagt föður sinn hafa fært sér og bræðrum sínum tveimur yfirráð yfir sjóðnum. Júlíus á hins vegar að hafa sagt að hann hafi alltaf ætlað að færa féð inn í dánarbú foreldra sinna, en ekki hafa fundið rétta tímann til þess, að sögn systursonar hans sem rætt var við í Kastljósi.
Persónulegur eftirlaunasjóður
Í fyrstu umfjöllun Kastljóss og Reykjavík Media var greint frá því að Júlíus Vífill stofnaði aflandsfélagið Silwood Foundation á Panama í ársbyrjun 2014. Hann var jafnframt eini kjörni fulltrúinn sem gögn Mossack Fonseca ná til sem hefur stofnað aflandsfélag eftir hrun. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í apríl, eftir að hafa ítrekað neitað að svara spurningum fréttamanna, sagði að um persónulegan eftirlaunasjóð væri að ræða og að allt sem við komi sjóðnum væri í samræmi við íslensk lög og reglur. Þá liggi fyrirkomulag sjóðsins og aðrar upplýsingar fyrir hjá skattayfirvöldum.
Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í kjölfar umfjöllunarinnar.
„Algjör ósannindi eða ómerkileg illmælgi“
Júlíus Vífill vildi sem fyrr segir ekki svara spurningum Kastljóss vegna eftirlaunasjóðs foreldra sinna. Hann sendi þættinum hins vegar stutta yfirlýsingu í dag þar sem segir að það litla sem hann hafi sé að komi fram í þætti kvöldsin séu ýmist algjör ósannindi eða ómerkileg illmælgi. „Sérstaklega er ótrúlega ófyrirleitið að halda því fram að ég hafi með einhverjum hætti gengið í eða sölsað undir mig sjóði í eigu annarra sem eru gróf ósannindi og mannorðsmeiðandi. Er yfirleitt hægt að bregðast við getgátum og dylgjum sem ekki byggja á neinum gögnum? Úr ágreiningi varðandi skipti á dánarbúi sem nú er í opinberum skiptum verður leyst með öðrum hætti en í Kastljósþætti ríkissjónvarpsins. Ég áskil mér allan rétt til að bregðast síðar við þessum þætti,“ skrifaði Júlíus Vífill.
Athugasemdir