Mágkonurnar Kristrún Lind Birgisdóttir og Hulda Þórey Garðarsdóttir reka saman ljósmæðraheimilið Annerly í Hong Kong. Fyrirtækið hefur fengið verðskulda athygli að undanförnu og vann meðal annars til verðlauna Mediazone fyrr á þessu ári fyrir að veita framúrskarandi þjónustu. Kristrún Lind þakkar velgengnina meðal annars styrkleika þeirra á internetinu en þær Hulda vinna markvisst í því að kynna fyrirtækið á hinum ýmsu samfélagsmiðlum.
„Við sátum kvöld eftir kvöld yfir YouTube myndböndum og lærðum að nota Google+, Facebook og aðra samskiptamiðla. Við þræluðum okkur í gegnum þetta, en erum núna með YouTube-rás, við erum með Facebook, Instagram, Pinterest og síðan erum við með blogg sem fær mjög mikinn lestur. Við erum með digga fjörtíu þúsund lesendur á hverjum mánuði. Þar erum við að skrifa um fæðingar, brjóstagjöf og allt sem tengist okkar þjónustu. En við notum okkur líka. Við drögum okkar persónur alltaf inn í fyrirtækið. Það virkar ótrúlega vel,“ segir Kristrún Lind, en þessa dagana eru þær Hulda Þórey staddar hér á landi að kenna námskeið sem snýr að því að virkja Íslendinga í því að skapa sér atvinnutækifæri í gegnum netið.
Mágkonur ákváðu að fara í rekstur
Hulda flutti til Hong Kong ásamt eiginmanni sínum, Steindóri Sigurgeirssyni, árið 2000. Steindór er forstöðumaður fyrir Sæplast Asia í Hong Kong. Hulda er ljósmóðir að mennt og fékk hún fljótlega vinnu hjá ljósmæðrastofunni Annerly. Þegar í ljós kom að fyrirtækið væri til sölu ákváðu þau hjónin að kaupa reksturinn. „Síðan þvældist maðurinn minn, sem er bróðir Huldu, inn í Sæplastið en ég kynntist honum hér á Íslandi einhverju seinna. Hulda er nú búin að vera úti í Hong Kong í fimmtán ár, en ég flutti út árið 2007.“
Kristrún Lind hefur áður starfað sem grunnskólastjóri á Flateyri og þá var hún aðstoðarmaður samgönguráðherra í ráðherratíð Sturlu Böðvarssonar. En hvernig dróst hún inn í reksturinn í Hong Kong? „Hulda var búin að vera í þessu lengi sem fagmanneskja. Síðan ákváðum við að taka þetta skrefinu lengra. Þá keypti ég helminginn af fyrirtækinu á móti henni og við óðum í að koma fyrirtækinu betur á framfæri,“ svarar Kristrún.
Athugasemdir