Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segist svara fyrirspurnum Stundarinnar í viðtali sem birt verður í Fréttablaðinu á morgun. Þetta segir hann í samtali við fréttamann RÚV í dag.
Stundin hefur sent Illuga og aðstoðarmanni hans, Sigríði Hallgrímsdóttur, fimmtán tölvupósta með spurningum um málið frá því í apríl, án þess að fá svar.
Fréttamaður RÚV spurði Illuga hvort það væri ekki óeðlilegt að hann hagi því sjálfur við hvaða fjölmiðla hann ræðir og hvenær. „Nei, það er ekkert óeðlilegt við það,“ svarar Illugi. „Þetta er stórt og mikið viðtal þar sem er meðal annars farið yfir þessar spurningar sem komu fram í Stundinni og voru birtar. Ég fer yfir þær í því viðtali.“
Hafði sjálfur samband og bað um viðtal við RÚV
Illugi ákvað að tjá sig um viðskipti sín og Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy, í viðtali við fréttastofu RÚV þann 26. apríl síðastliðinn eftir að Stundin hafði beint til hans spurningum um félagið OG Capital. Ragnhildur Thorlacius, fréttamaður á RÚV, sagði frá því í viðtali við Fréttablaðið að Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður Illuga, hafi sjálf haft samband við Fréttastofu RÚV og óskað eftir viðtali við ráðherrann. Í viðtalinu við RÚV greindi Illugi frá því að hann hefði selt íbúð sína á Ránargötu til Hauks eftir að hafa lent í fjárhagserfiðleikum.
„Þetta er stórt og mikið viðtal þar sem er meðal annars farið yfir þessar spurningar sem komu fram í Stundinni.“
Fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að Illugi hafi farið í opinbera ferð til Kína þar sem hann fundaði meðal annars með fulltrúum frá Orku Energy og kínverku samstarfsfyrirtæki þess á sviði orkumála, Sinopec. Þetta þótti áhugavert í ljósi þess að Illugi vann einnig hjá Orku Energy sem ráðgjafi eftir að hann fór í leyfi frá þingstörfum árin 2010 og 2011. Stundin greindi svo frá því að ráðherrann hefði einnig selt Hauki eignarhaldsfélagið OG Capital og að íbúðin væri nú skráð á það fyrirtæki og að Illugi leigði íbúðina af fyrirtækinu.
Eins og fram kom í frétt Stundarinnar fyrr í vikunni hafa fimm ritstjórnir fjölmiðla á Íslandi í fimm mánuði reynt að fá Illuga til að svara spurningum um Orku Energy málið, en án árangurs.
Hefur ekki íhugað afsögn
Illugi segist í samtali við RÚV ekki hafa íhugað stöðu sína vegna málsins. „Ég hef nú bent á að í þessu máli hef ég ekki gert annað fyrir þetta fyrirtæki en til dæmis aðrir ráðherrar í til dæmis síðustu ríkisstjórn hafa gert. Það þyrfti þá að vera hægt að segja að ég hafi með einhverjum hætti veitt þessu fyrirtæki óeðlilega fyrirgreiðslu. Það hefur ekki verið með nokkrum hætti sýnt fram á það eða bent á,“ segir Illugi meðal annars.
Þá bendir hann á að rektorar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Listaháskólans hafi einnig verið með í för í umræddri Kínaferð, auk forstöðumanni Rannís. „Við áttum fund í Kína með ráðherrum þeirra sviða sem heyra undir mitt ráðuneyti. Tilurð ferðarinnar er sú að það var boð frá Kínverjum og beiðni um það að þessi vinnuferð yrði farin. Við funduðum með vísindastofnunum og menningarstofnunum og svo framvegis og svo framvegis. Þannig að að láta að því liggja að þessi ferð hafi með einhverjum hætti verið farin vegna einhvers eins fyrirtækis er auðvitað fráleitt,“ segir Illugi meðal annars.
Illugi bendir á að Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson hafi á síðasta kjörtímabili sömuleiðis greitt götu Orku Energy með einhverjum hætti. Ef menn ætli að fara fram á afsögn hans þurfi þeir að benda á að hann hafi gert eitthvað annað en ráðherrar fyrri ríkisstjórnar. Þegar Fréttamaður RÚV bendir honum á að munurinn sé sá að Illugi er fjárhagslega háður stjórnarformanni Orku Energy vísar Illugi aftur á viðtalið í Fréttablaðinu. Þar sé farið yfir málið.
„Að láta að því liggja að þessi ferð hafi með einhverjum hætti verið farin vegna einhvers eins fyrirtækis er auðvitað fráleitt.“
Að lokum var Illugi spurður út í þriggja milljóna krónu lán sem hann fékk frá Orku Energy og Stundin fjallaði um í síðustu viku. „Allar þessar spurningar hafa komið fram af hálfu Stundarinnar og verða ræddar af minni hálfu þarna. Ég hef síðan sett þá reglu í þessu máli, rétt eins og ég setti varðandi húsaleiguna, að ég ætla mér að gefa upp allar mínar fjárhagsskuldbindingar með sama hætti og er gerð krafa til gagnvart öðrum þingmönnum og öðrum ráðherrum. Það hljóta auðvitað að gilda um mig sömu reglur og alla aðra hvað það varðar.“
Vekur upp spurningar sem þarf að rannsaka
Í síðasta tölublaði Stundarinnar var rætt við forsvarsmann sænskrar stofnunar sem sérhæfir sig í rannsóknum á mútum, Institutet mot mutor. Forsvarsmaður stofnunarinnar, Helena Sundén, sagði að samkvæmt lýsingum á máli Illuga bæri að skoða málið nánar. „Lýsingin á málinu vekur upp spurningar sem þarf að rannsaka nánar. Það er mikilvægt að fulltrúar almennings séu opnir og að gagnsæi ríki með þau persónulegu tengsl sem þeir kunna að hafa og það er að sjálfsögðu mikilvægt að þeir stuðli ekki að því að spilla fyrir heilbrigðri og frjálsri samkeppni á markaðnum. Einungis grunur um að þjóðkjörinn fulltrúi gæti hagsmuna annarra en almennings er slæmur í sjálfum sér þar sem hann skaðar trúverðugleika hans. Stjórnmálamenn okkar skulu ekki koma sér í neina stöðu sem kastað getur rýrð á það traust sem almenningur ber í þeirra garð.“
Athugasemdir