„Það er komið fram við mig eins og ég sé dauður en ekki lifandi,“ segir maður sem hellti yfir sig grillvökva og hótaði að kveikja í sér fyrir utan höfuðstöðvar Rauða krossins í síðustu viku. Hann kom til Íslands í mars síðastliðnum og sótti um hæli. Nú dvelur hann á Landspítalanum þar sem hann fær sálræna aðhlynningu.
Maðurinn skelfur og er með nístandi höfuðverk. Á miðvikudaginn ákvað hann að hætta að borða og drekka. „Ég sé enga ástæðu til að lifa lengur, mér líður eins og öllum sé sama um mig og enginn vilji hjálpa mér. Þá er kannski betra að vera bara dauður.“
„Ég sé enga ástæðu til að lifa lengur“
Hann er íranskur að uppruna og hefur hrakist milli Evrópuríkja undanfarin sex ár; átt viðkomu í Tyrklandi, Grikklandi, Ítalíu, Kýpur og Svíþjóð. Hann segist verða fyrir stöðugu áreiti og hótunum af hendi íranskra stjórnvalda sem saki hann um njósnir. Þetta rekur hann til þess að hann er kristinnar trúar og tók þátt í mótmælum í heimalandinu á yngri árum.
Trúbræður hans í Íran sæta ofsóknum. Af 80 milljónum íbúa er aðeins hálft prósent kristið. Í skýrslu frá 2013 er haft eftir Ahmed Shaheed, sérstökum talsmanni Sameinuðu þjóðanna um mannréttindamál í Íran, að þar séu kristnir menn sóttir til saka og fangelsaðir á hæpnum forsendum, til að mynda með vísan til þess að trúariðkun þeirra ógni þjóðaröryggi. Hafa kristnir Íranir flykkst úr landi undanfarin ár.
Á fimmtudaginn í síðustu viku, þann 27. ágúst, var maðurinn orðinn úrkula vonar. Mál hans hafði tafist og biðin eftir fyrsta svari yfirvalda var komin langt umfram 90 daga viðmiðunartíma málsmeðferðar. Hann vildi ná tali af réttargæslumanni sínum, en eftir að tekið var upp nýtt fyrirkomulag réttargæslumála hælisleitenda hafa aðeins tveir til þrír lögfræðingar Rauða krossins unnið við að gæta hagsmuna þeirra hérlendis.
Maðurinn gerði árangurslausa tilraun til að ná sambandi við annan af réttargæslumönnunum, þann sem honum hafði verið úthlutað. Nokkru síðar bárust smáskilaboð frá lögfræðingnum: „Dear xxxx I am out of Iceland untill 9 september. Please call my colleague xxxxxxxxx, 5704000. She is handling your case while I am away.“
Angistartilfinning greip manninn. Hann ræddi við hinn lögfræðinginn sem sagðist mundu reyna að aðstoða hann. Maðurinn bjóst við að heyra frá honum aftur daginn eftir en úr því varð ekki. „Mér leið eins og öllum væri sama um mig,“ segir hann. „Ég fór að húsakynnum Rauða krossins og ætlaði að kveikja í mér – ekki inni í húsinu heldur fyrir utan – en lögreglan yfirbugaði mig.“ Í kjölfarið var hann vistaður á geðsviði Landspítalans og þar dvelur hann enn. Hann sóttist sjálfur eftir því af fyrra bragði að fá að segja sögu sína.
Vinur mannsins réttir honum vatnsglas og hvetur hann til að fá sér sopa. Að öðrum kosti muni hann hvað og hverju örmagnast og hætta að geta hreyft sig. Hælisleitandinn horfir á glasið, tekur það svo upp og hellir vatninu út um gluggann.
Bætt við 4. september kl. 19:30:
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum hafa sjálfboðaliðar og starfsfólk samtakanna verið í reglulegu sambandi við manninn allt frá því hann kom til Íslands. Þá er Stundinni tjáð að maðurinn hafi verið látinn vita fyrirfram að lögmaður hans færi í sumarfrí og annar réttargæslumaður gæti tekið við málinu. Auk þess hafi Rauði krossinn reynt að ná sambandi við manninn símleiðis daginn áður en hann hótaði að kveikja í sér fyrir utan húsakynni Rauða krossins þann 28. ágúst. Starfsmaður Rauða krossins segir í samtali við Stundina að sjálfboðaliðar og starfsmenn samtakanna hafi hitt manninn daglega á Landspítalanum frá því að hann var vistaður þar.
Athugasemdir