Stjórnarmenn Hollvinafélags MR geta vart hugsað sér að gegna áfram störfum nema Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, verði áfram formaður félagsins. Frá þessu greinir Kristín Heimisdóttir, stjórnarmaður í félaginu, í lokaðri grúppu útskrifaðra MR-inga á Facebook.
Benedikt hefur sætt gagnrýni fyrir að sækjast eftir endurkjöri sem formaður Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík meðan hann kemur með beinum hætti að ákvörðunum um fjárveitingar til framhaldsskóla sem fjármálaráðherra Íslands. Hrafnkell Hringur Helgason, ungur listfræðinemi, tilkynnti um mótframboð sitt í síðustu viku. „Það verður að teljast afar óheppilegt að fjármálaráðherra gegni formannshlutverki í hollvinafélagi stofnunar sem hann ákvarðar sjálfur fjárframlög til,“ sagði Hrafnkell í fréttatilkynningu. „Raunar yrði það Menntaskólanum í Reykjavík til háðungar ef sami maður og stendur að stórfelldum niðurskurði til framhaldsskóla yrði áfram andlit hollvinafélags skólans.“
Kristín Heimisdóttir hefur setið í stjórn Hollvinafélags MR allt frá stofnun félagsins og fullyrðir að Benedikt hafi sinnt hlutverki sínu sem formaður félagsins með sóma. „Á þessum árum hefur okkur tekist - með ykkar stuðningi og hjálp - að safna tæpum 15 milljónum sem hafa runnið beint til skólans,“ skrifar Kristín til gamalla skólafélaga og bætir við: „Aðalfundur félagsins fer fram á morgun. Á síðustu stundu barst mótframboð til formanns, en ungur listfræðinemi og MR-ingur vill með þeim hætti mótmæla að fjármálaráðherra, sem leggur fram fjármálaáætlun með skertum framlögum til menntamála, haldi áfram sem formaður félagsins. Ég vil taka það fram að Benedikt hefur unnið af heilindum og reynst einstaklega málefnalegur í öllu starfi fyrir hollvini. Aldrei hef ég orðið vör við að önnur störf hans hafi haft áhrif inn í okkar starf fyrir MR.“
Segir Kristín að hún hafi áhyggjur af því að framboð listfræðinemans ógni starfi Hollvinafélagsins. „Menn geta haft sínar skoðanir, en ég hef áhyggjur af því að starfi Hollvinafélagsins sé stefnt í hættu. Stjórnarmenn geta vart hugsað sér að starfa áfram, verði gerð kúvending með þessum hætti.“
„Ég hef áhyggjur af því að starfi
Hollvinafélagsins sé stefnt í hættu“
Hún hvetur fyrrverandi MR-inga til að mæta og styðja fjármálaráðherra: „Því vil ég biðja alla þá sem mögulega geta, og vilja styðja við áframhaldandi starf hollvina í núverandi mynd, að mæta á aðalfundinn á morgun og styðja Benedikt og stjórnina til áframhaldandi starfa. Atkvæðisrétt á fundinum hafa allir hollvinir skólans, þ.e. í raun allir útskrifaðir MR-ingar.“
Hrafnkell Hringur tilkynnti um mótframboð sitt á föstudaginn síðastliðinn en upplýsingar um framboð hans voru hvorki birtar á vef Menntaskólans í Reykjavík né á vef Hollvinafélags skólans fyrr en síðdegis í gær. „Ég hélt að venjan væri sú, þegar kosið er í stjórn og formennsku félaga, að tilkynnt væri um framkomin framboð þegar framboðsfrestur rynni út. Hér sýnist mér að ekki sé gætt jafnræðis milli framboðs míns og framboðs fjármála- og efnahagsráðherra,“ sagði Hrafnkell þegar Stundin ræddi við hann í gær.
Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem Benedikt kynnti í apríl, verður dregið verulega úr fjárframlögum til framhaldsskólastigsins næstu fimm árin og árið 2018 mun menntakerfið sæta fjórfalt strangari aðhaldskröfu en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar. Stjórnendur framhaldsskólanna og framhaldsskólakennarar hafa gagnrýnt áætlunina harðlega. Þá hefur ríkisstjórnin einnig sætt gagnrýni vegna áforma um sameiningu Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskóla Íslands.
Aðalfundur Hollvinafélagsins fer fram á morgun, laugardag, á hátíðarsal skólans kl. 13:00.
Athugasemdir