Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður hjá lögmannsstofunni Rétti og einn virtasti mannréttindalögfræðingur Íslands, gagnrýnir Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara harðlega vegna framgöngu hans gagnvart tveimur þjóðkirkjuprestum og írökskum hælisleitendum í fjölmiðlum.
Á föstudaginn var haft eftir Helga á Vísi.is að hælisleitendurnir, sem handteknir voru í Laugarneskirkju þann 28. júní síðastliðinn, hefðu verið að „svara kalli kirkjunnar“ að frumkvæði prestanna. Þessar upplýsingar sagði saksóknarinn að komið hefðu fram í samskiptum lögreglu við annan mannanna eftir handtökuna. Höfundur fréttarinnar greindi svo frá því í umræðum á Facebook sama dag að Helgi hefði sagt sér að upplýsingarnar hefðu komið fram í yfirheyrslum lögreglu. Annar prestanna hafði aðra sögu að segja af aðdraganda atviksins.
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður segir í samtali við Stundina að hann telji ábyrgðarlaust af handhafa ákæruvalds að tjá sig með þeim hætti sem Helgi Magnús gerir. „Af viðtalinu við Helga Magnús Gunnarsson, vararíkisaksóknara, verður ekki annað ráðið en hann hafi einungis fyrir sér sögusagnir lögreglu um ummæli handtekins manns, sem á yfir höfði sér brottflutning til lands þar sem hann óttast ofsóknir,“ segir Ragnar og bætir við: „Slíkar sögusagnir eru að sjálfsögðu að engu hafandi og heyrir til undantekninga að handhafi ákæruvalds tali af slíku ábyrgðarleysi.“
Athugasemdir