„Við fengum þær skýringar að þetta væri hættulaust kísilryk og að starfsmenn hafi reynt að losa um stíflu í reykhreinsivirkinu með þessum hætti,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, um myndskeið sem Stundin birti í gær og sýndi óleyfilega losun á efnum úr verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ.
Sigríður segir að Umhverfisstofnun hafi haft samband við forsvarsmenn United Silicon í Helguvík strax í gærkvöldi þegar starfsmenn hafi séð myndskeiðið og að stofnunin hafi fengið þessar skýringar frá forsvarsmönnum verksmiðjunnar, sem hafa þó áður verið staðnir að því að gefa Umhverfisstofnun misvísandi upplýsingar.
Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar frá starfsmönnum United Silicon var um að ræða óeðlilega og óheimila losun á skaðlegum efnum sem hefði verið stunduð ítrekað. Nánar verður fjallað um óheimila losun United Silicon á efnum og önnur frávik frá starfsleyfi verksmiðjunnar í prentútgáfu Stundarinnar sem kemur út á morgun. Þá munu einnig fleiri myndskeið líta dagsins ljós á vef Stundarinnar frá vinnusvæði verksmiðjunnar, bæði innanhúss sem utan.
Óheimil losun
Verksmiðjunni var ekki heimilt að losa umrædd efni á þennan hátt, hvort sem um var að ræða hættuleg efni sem verða til við framleiðslu eða hættulaust kísilryk. Þá var United Silicon einnig skylt að tilkynna um þessa losun en það gerðu forsvarsmenn verksmiðjunnar ekki heldur. Þetta staðfestir Sigríður og segir að Umhverfisstofnun sé nú að undirbúa eftirlitsferð á vinnusvæðið. Umhverfisstofnun kveðst vera með verksmiðju United Silicon í „gjörgæslu“.
Hvað sjáanlega mengun varðar í öðru myndskeiði sem Stundin birti og var tekið af vinnusvæði verksmiðjunnar um klukkan hálf þrjú í gærdag segir Umhverfisstofnun að forsvarsmenn United Silicon hafi ekki getað gefið skýringar á þeirri mengun þar sem slökkt hafi verið á ofninum. Þá var sagt að forsvarsmenn United Silicon hefðu efasemdir um að myndskeiðið hafi verið tekið um miðjan dag í gær. Myndskeiðið var tekið klukkan hálf þrjú í gær.
Óvenjulegar mælingar
Þær skýringar United Silicon að þeir viti ekki hvað hafi verið í gangi á þessum tíma eru í mótsögn við bæði myndskeiðið sem Stundin birti og loftgæðamæla á svæðinu sem sýndu mikla köfnunarefnisdíoxíð-mengun frá hádegi í gær og fram til um það bil klukkan átta í gærkvöldi. Hægt er að sjá þessar niðurstöður á vefsíðunni Andvari.is en hún er rekin af Orkurannsóknum Keilis sem sér um loftgæðamælingar í kring um athafnasvæðið í Helguvík.
Stundin bar þessar tölur undir Umhverfisstofnun og fengust þau svör að málið þyrfti að skoða nánar þar sem það væri óvenjulegt að slík mengun væri að finnast í þessu magni þegar slökkt væri á ofni verksmiðjunnar.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar voru starfsmenn að losa ryk og reyk úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar á sama hátt og var sýnt í myndskeiði sem birt var með umfjölluninni í gær. Þrátt fyrir það segist United Silicon aðeins hafa losað efni frá framleiðslunni á þennan hátt einu sinni.
Umhverfisstofnun staðfestir þó að þeir hafi fengið ábendingar um að þetta hafi gerst oftar.
Hleri hafi óvart opnast
Kristleifur Andrésson, yfirmaður umhverfis- og öryggismála hjá United Silicon, segir í fyrsta lagi alrangt að þetta hafi verið gert í skjóli nætur. Ekki sé unnið á þessu svæði á næturnar. Nákvæmari upplýsingar hafði hann þó ekki. Hvað varðar sjáanlegu mengunina sem sást í myndskeiði Stundarinnar í gær segir Kristleifur að hleri hafi af einhverjum ástæðum óvart opnast með þeim afleiðingum að kísilryk blés út úr reykhreinsivirkinu og út í andrúmsloftið. Það atvik var ekki tilkynnt til Umhverfisstofnunar.
Þá hafa átt sér stað nokkur mengunaróhöpp í verksmiðjunni sem voru heldur ekki tilkynnt. Hvorki til Umhverfisstofnunar né heilbrigðiseftirlitsins. Þetta hefur Umhverfisstofnun líka staðfest. Allt eru þetta frávik frá starfsleyfi verksmiðjunnar sem þýðir einfaldlega að ekki hafi verið farið eftir þeim lögum og reglum sem United Silicon er gert að fara eftir.
Umhverfisstofnun hyggst sannreyna fullyrðingar
Líkt og Stundin greindi frá í gær er ekki hægt að fullyrða hversu mikið magn af skaðlegum efnum leynist í þessari losun versmiðjunnar þar sem þessari aðferð hefur verið haldið leyndri fyrir Umhverfisstofnun. Starfsmaður United Silicon segir þetta þó gert ítrekað vegna þess að reykhreinsivirki verksmiðjunnar hafi reynst of lítið fyrir það magn sem framleitt er og því stíflist það reglulega. Til þess að forða verksmiðjunni frá þeim kostnaði sem hlýst af því að kaupa nýja síupoka í reykhreinsivirkið, sem eyðileggjast þegar reykhreinsivirkið stíflast, sé þrýsting á kerfinu létt með þessum hætti. Verksmiðjan hafi nú þegar eyðilagt síupoka fyrir tugi milljóna og því sé þessari ólöglegu aðferð beitt.
Umhverfisstofnun hefur greint frá að hún hafi oftar en einu sinni fengið misvísandi upplýsingar frá United Silicon og að ekki hafi verið tilkynnt um atvik sem eru tilkynningaskyld samkvæmt starfsleyfi verksmiðjunnar. Aðspurð hvort það væri ekki eðlilegt að Umhverfisstofnun sannreyni svör United Silicon um að þetta hafi verið hættulaust kísilryk segir Sigríður: „Jú, algjörlega.“
Athugasemdir