Katrín Lilja Sigurjónsdóttir er þolandi hefndarkláms. Í febrúar á síðasta ári birti fyrrverandi kærasti hennar fimm nektarmyndir af henni á Facebook-síðu sinni en hann var nýlega dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna málsins, auk þess sem honum var gert að greiða henni 250 þúsund krónur í miskabætur.
Hún var einungis 17 ára þegar brotið var framið, gerandinn 18 ára. Katrín Lilja segir frá upplifun sinni af hefndarklámi, ákvörðuninni um að kæra fyrrverandi kærasta sinn og skömminni sem hún segist strax hafa skilað til föðurhúsanna.
Nærmyndir af bakhluta og kynfærum
„Við vorum búin að vera saman í eitt og hálft ár. Ég sendi honum þessar myndir sjálf nokkru áður en þetta gerðist, en ég hélt að hann hefði eytt þeim. Ég var búin að ganga á eftir því í svolítinn tíma og biðja hann um eyða þeim úr tölvunni sinni. Svo var ég á þorrablóti með mömmu minni og pabba í febrúar í fyrra og hafði slökkt á símanum mínum því hann var ítrekað að reyna að hringja í mig,“ segir Katrín Lilja en þau höfðu hætt saman deginum áður. Að sögn Katrínar hafði pilturinn tekið sambandsslitunum illa og þá um nóttina setti hann myndirnar af henni á Facebook. Samkvæmt dómsskjölum er um að ræða nærmyndir af bakhluta og kynfærum Katrínar og fylgdi myndunum textinn: „Takk fyrir ad halda framhjá mer sæta“ ásamt fullu nafni Katrínar Lilju.
Athugasemdir