Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi innanríkisráðherra fundaði með Haraldi Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, þann 22. nóvember árið 2013 um það leyti sem reiðibylgja var að rísa vegna lekamálsins og öll spjót beindust að innanríkisráðuneytinu. „Ég hef ekkert við þig að tala,” segir Haraldur aðspurður hvað þeim ráðherra hafi farið á milli á fundinum.
Stundin hefur fengið staðfest að Haraldur fékk far með ráðherrabílnum rétt upp úr hádegi þennan dag. Hann kvaddi þáverandi innanríkisráðherra á Amtmannsstíg og gekk norður Skólastrætið. Ráðherra keyrði hins vegar með einkabílstjóra sínum niður á Lækjargötu. Síðar um daginn birti innanríkisráðuneytið tilkynningu á vef sínum þar sem fullyrt var ekkert benti til þess að trúnaðargögn hefðu „verið afhent frá embættismönnum innanríkisráðuneytisins“.
Tveimur dögum áður, morguninn 20. nóvember, hafði Gísli Freyr Valdórsson, þáverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, átt í símasamskiptum við Harald og veitt honum trúnaðarupplýsingar um hælisleitendurna Evelyn Glory Joseph og Tony Omos sem Mbl.is byggði frétt sína á þennan dag. Hanna Birna hefur alltaf þvertekið fyrir að hafa vitað af sekt Gísla. Hún var upplýst um samskiptin sem hann átti við fjölmiðlafólk í skýrslutöku hjá lögreglu síðasta vor, en strax þá kom hún Gísla til varnar og fullyrti að ekkert væri óeðlilegt við samskipti hans við ritstjóra Morgunblaðsins.
Þegar fundurinn milli Haraldar og Hönnu Birnu átti sér stað hafði mikið gengið á. Þennan sama dag kom fram á DV.is að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hygðust kalla Hönnu Birnu fyrir nefndina vegna lekamálsins. Daginn áður höfðu fyrstu fréttir DV sem einblíndu á trúnaðarbrest innanríkisráðuneytið birst á vefnum, fréttir með fyrirsögnum á borð við „Lögmenn orðlausir vegna leka á persónuupplýsingum“ og „Aðstoðarmaður tvísaga og ólga innan ráðuneytisins“. Hafði Birgitta Jónsdóttir þingkona krafist þess að innanríkisráðherra bæði hælisleitendurna afsökunar á trúnaðarbrotinu.
–––
Þessi frétt er úr prentútgáfu Stundarinnar frá því fyrr á árinu en birtist nú í fyrsta skipti hér á vefnum.
Athugasemdir