Grænlenskur skipverji togarans Regina C var beðinn um að yfirgefa verslun á Íslandi. Áhöfn skipsins fer til Grænlands í dag.
Jóan Pauli, skipstjóri Reginu C, hafnar frétt Grænlenska útvarpsins um að skipverjum hafið verið vísað úr versluninni af afgreiðslumanni og að áhöfnin fari frá Íslandi vegna óvildar sem þeir mæta í kjölfar þess að grænlenskir skipverjar af Polar Nanoq voru handteknir grunaðir um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur úr miðborg Reykjavíkur aðfararnótt laugardags.
Eftir að þrír meðlimir áhafnar grænlenska togarans Polar Nanoq voru handteknir hafa aðrir Grænlendingar upplifað breytt viðhorf í sinn garð.
Grænlenska útvarpið sagði frá því í dag að útgerðin Niisa Trawl hefði ákveðið að senda sex sjómenn aftur til Grænlands vegna vanlíðunar sem þeir upplifa við slæmar móttökur á Íslandi og í kjölfar þess að skipverjum hafi verið meinað að kaupa sælgæti og blöð í verslun.
Fram kemur hins vegar í máli skipstjórans og svo umboðsmanns Reginu C að það hafi ekki verið afgreiðslumaður sem vísaði þeim út, heldur tvær ókurteisar konur.
„Þeim líður ekki eins og þeir séu velkomnir“
„Þeim líður ekki eins og þeir séu velkomnir, þegar þeir fara í bæinn,“ sagði Svend Christensen, eigandi Niisa Trawl, í samtali við grænlenska útvarpið.
Greinilegt er að lesendur fréttavefs Grænlenska útvarpsins taka tíðindin nærri sér. „Við þurfum að hugsa okkur um í framtíðinni, ef við þurfum að landa á Íslandi. Ef við erum hvergi velkomin á Íslandi verðum við að landa annars staðar,“ segir einn lesandinn.
„Þetta er ekki gott af Íslendingum, sem við köllum nágranna ... Við ætlum ekki niður á stig Íslendinganna,“ segir annar lesandi.
„Afsakið, það er það eina sem ég, sem Íslendingur, get sagt,“ segir Illugi Jökulsson, rithöfundur, útvarpsmaður og pistlahöfundur.
Utanríkisráðherra Grænlands, Vittus Qujaukitsoq, hefur ákveðið að hætta við ferð á ráðstefnu í Noregi vegna handtöku grænlenskra skipverja í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur.
Athugasemdir