„Geðsjúklingar drepnir,“ segir í umsögn Láru Höllu Maack, geðlæknis og réttarlæknis, um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, um breytingar á kostnaðarþáttöku sjúklinga. „Geðlæknar utan Landspítala halda að jafnaði utan um ótal fárveika sjúklinga. Fólk í lífshættu. Nýja greiðslukerfið mun koma í veg fyrir að fárveikt, innsæislaust fólk fari til geðlæknis eða heimilislæknis. Það er of dýrt að drepa sig ekki,“ útskýrir Lára.
Á þriðja tug umsagna hafa borist Alþingi og nær allir umsagnaraðilar vara eindregið við því að frumvarpið verði að lögum, enda muni það leggja auknar byrðar á langflesta sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Umsögn Láru er í 9 liðum. Telur hún meðal annars að í frumvarpinu felist „dulin / flókin / óskiljanleg leið til þess að hækka upphæð sjúklinga upp í afsláttanúmer“. Þannig muni nær allir þurfa að borga miklu meira og hætta að fara til læknis áður en þeim batnar. „Skárra að láta dánkast eða drepast,“ skrifar hún. Niðurstaða Láru er þessi: „Hendið þessu frumvarpi út um gluggann og byrjið upp á nýtt. Og sjálfstæðismenn: Ekki kenna Pétri Blöndal um þetta frumvarp – ekkert í þessu frumvarpi byggir á hans hugmyndum.“
Athugasemdir