Nichole Leigh Mosty, þingkona Bjartrar framtíðar og formaður velferðarnefndar Alþingis, sagði í umræðum um breytingar á almannatryggingalögum fyrr í vikunni að ef mistök síðasta þings yrðu ekki leiðrétt gæti það orðið til þess að ekki yrði fjárhagslegt svigrúm til að bæta kjör eldri borgara á næstunni, svo sem með því að halda áfram að draga úr tekjuskerðingum vegna atvinnutekna. Þannig gaf hún í skyn að ef ekki næðist samstaða um að breyta almannatryggingalögum með afturvirkum hætti yrðu mistök löggjafans látin bitna sérstaklega á lífskjörum lífeyrisþega á næstu árum.
Eins og Stundin hefur áður fjallað um samþykkti Alþingi afturvirkar breytingar á almannatryggingalögum á mánudag sem fela í sér skerðingu á fimm milljarða réttindum sem ellilífeyrisþegar öðluðust í janúar og febrúar vegna mistaka sem urðu við lagasetningu síðasta haust. Hefur formaður velferðarnefndar viðurkennt að mistökin hafi skapað lífeyrisþegum réttindi, en mistökin ollu því að samkvæmt lagabókstafnum hefðu tekjur úr lífeyrissjóðum ekki átt að gilda til skerðingar á ellilífeyri þegar ætlunin var að þetta ætti einvörðunugu við um útreikning örorkulífeyris. Í janúar og febrúar fór Tryggingastofnun eftir vilja löggjafans en ekki lagabókstafnum, en rétt framkvæmd laganna hefði kostað hið opinbera um 5 milljarða króna á tímabilinu.
Þegar rætt var um málið í fyrstu og annarri umræðu vöktu Píratar athygli á því að lagabreytingin gengi gegn grunnreglu íslensks réttarfars um bann við afturvirkni laga. Ekki væri hægt að ætlast til þess að fólk rýndi í lögskýringargögn til að þekkja raunveruleg réttindi sín. Því væri eðlilegast að ákvæði um afturvirkni laganna yrðu fjarlægð. Þingmenn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins voru annarrar skoðunar og samþykktu frumvarp meirihluta velferðarnefndar óbreytt.
Í umræðum um málið á mánudaginn hvatti Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar og formaður velferðarnefndar, til þess að lögin yrðu samþykkt og látin gilda afturvirkt. Hún lagði áherslu á að enn sem komið er hefði enginn orðið fyrir tjóni vegna mistakanna sem urðu við breytingarnar á almannatryggingalögum. Hins vegar gæti orðið tjón ef frumvarp meirihluta velferðarnefndar yrði ekki samþykkt.
„Hér hefur ekki orðið tjón. Tjónið gæti hins vegar myndast þegar mistök sem gerð voru við breytingar á lögunum verða ekki leiðrétt og ég er hrædd um að þá verði ekki fjárhagslegt svigrúm til að halda áfram að vinna í því að hækka lífeyrisaldur í áföngum og hækka frítekjumark vegna atvinnutekna þannig að eldra fólk geti nýtt starfsgetu sína og reynslu samfélaginu til heilla,“ sagði Nichole. „Áhættan sem við sitjum uppi með og sú ábyrgð sem hvílir á okkar öxlum vegna þessarar afturvirkni eru 5 milljarðar, 5 milljarðar króna sem duga fyrir alls konar verkefnum sem við þurfum að sinna í velferðarkerfinu og í ráðuneytinu.“
Athugasemdir