Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hvatti til þess í framíkalli á Alþingi í dag að þingkosningar yrðu haldnar í apríl 2017. Skömmu áður höfðu bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra gefið fyrirheit um að kosið yrði í haust. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hneyksluðust á ummælum Þorsteins, en sjálfur tók hann ekki til máls í umræðunum.
„Þingmaður Framsóknarflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, kallaði hér af aftasta bekknum fram í að kosningar gætu verið í apríl 2017,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. „Þingmaðurinn er fulltrúi Framsóknarflokksins í forsætisnefnd og það vekur auðvitað enn á ný þær spurningar hvort það sé raunverulega fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að drepa málum á dreif og reyna að fresta kosningum fyrst fram á haustið og síðan fram á vorið og hvort yfirlýsing fjármálaráðherra um að kosið verði í haust og það verði ekki síðasta þingið á þessu kjörtímabili haldi eða haldi ekki.“
Athugasemdir