Í desember árið 1967 fæddist í Reykjavík Hildur Bjarnadóttir, bogamaður. „Pabbi minn er listamaður. Alvörupabbi minn. Bjarni H. Þórarinsson heitir hann.“ Móðir hennar var ung þegar hún eignaðist hana og bjuggu þær mæðgur hjá ömmu og afa Hildar fyrstu árin. Eftir að móðir hennar kynntist svo Þórði Jónssyni, fósturföður Hildar, flutti fjölskyldan í Laugarásinn, þar sem þau bjuggu svo þar til Hildur var átta ára. Þvínæst fluttu þau í Hafnarfjörð, þar sem Hildur bjó næstu átta árin, þar til hún hóf nám í Verslunarskólanum, en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. „Og þá skipti ég um eftirnafn. Í staðinn fyrir að vera Bjarnadóttir varð ég Þórðardóttir. Aðalástæðan fyrir mér var að á póstkassanum stóð alltaf Þórður Jónsson, Björg Hanssen, svo stóð alltaf Hildur Bjarnadóttir og svo tvær Þórðardætur, systur mínar. Mér fannst ég alltaf stinga svo í stúf, það var svo greinilegt að ég var ekki hluti af þessari fjölskyldu. Þetta er örugglega eitthvað sem margir upplifa sem eru svona fósturbörn. Ég vildi tilheyra fjölskyldunni og þess vegna ákvað ég að breyta um eftirnafn. Það var ástæðan fyrir því að ég gerði þetta.“
„Þetta er svona áhugamál hjá mér, ekkert sem ég lifi eftir.“
Við það að breyta um föðurnafn vill Hildur meina að hún hafi einnig breytt um persónuleika. Hún hafi fram að þessu verið feimin og til baka, „en ég ákvað að hætta að vera feimin, ákvað að tala við alla. Varð bara opin manneskja, ákvað að opna mig.“ Ein af hugsanlegum ástæðum þess að persónuleiki hennar breyttist telur Hildur að megi liggja í talnaspeki. „Þegar ég var Hildur Bjarnadóttir þá var ég 3, sem er bara lokuð týpa og inni í sér. En þegar ég skipti um föðurnafn varð ég 1, sem er leiðtogatala. Ég er líka með fæðingartöluna 1, þannig að ég er tvöfaldur ás.“ Hún segir talnaspekina þó ekki vera neinn miðpunkt í sinni tilveru. „Það er bara gaman að pæla í þessu, þetta er svona áhugamál hjá mér, ekkert sem ég lifi eftir.“
Hneigðist ung til ritlistar
Uppeldi sínu lýsir Hildur sem mjög öruggu. Fjölskyldan hafi til dæmis haft skemmtilega hefð á laugardagskvöldum, þegar hún bjó til heimatilbúinn sjeik og horfði saman á skemmtiþáttinn Löður. „Við kölluðum þetta sjeik með Löðri.“
Þrátt fyrir að hafa verið verðlaunuð fyrir námsárangur í barnaskóla segist Hildur hafa verið komin með algjört ógeð á öllu námi eftir Versló. Hún fór sem skiptinemi til Maine í Bandaríkjunum, sem hún vill meina að hafi ruglað aðeins í sér. „Þannig að eftir stúdentspróf þá var ég bara að flakka um heiminn og prófa hitt og þetta.“
Á flakki sínu prófaði Hildur ýmislegt, meðal annars að vinna og búa í London, auk þess sem hún lærði tískumarkaðsfræði í San Diego, Kaliforníu. Eitt af því sem blundaði þó alltaf í henni var draumurinn um að vera rithöfundur. Hildur hafði fiktað við skriftir frá því hún var barn, þegar hún skrifaði meðal annars sögur og ævintýri, sem hafa varðveist. Eftir að hafa farið á flakk um heiminn og prófað eitt og annað kom hún svo aftur heim, 26 ára gömul, og ætlaði að vera rithöfundur.
Það reyndist þó aðeins flóknari heimur að komast inn í en hún gerði ráð fyrir. Hildur dó þó ekki ráðalaus, frekar en fyrri daginn, og gekk í leikfélagið Hugleik, fyrst sem leikari en seinna fór hún að skifa verk sem voru sett upp. „Þetta var æðislega skemmtilegt. Ég fór einmitt í leikfélagið af því ég vildi vera að skrifa og vissi að þau væru að setja upp leikrit sem þau hefðu skrifað sjálf. Hugleikur er frábær uppeldisstöð fyrir leikskáld, alveg einstakt tækifæri fyrir fólk til þess að skrifa.“ Eitt af verkunum hennar, baðstofuleikritið Undir Hamrinum, gekk svo vel að ákveðið var að fara með það á leiklistarsýningu í Eistlandi. Þar voru viðtökurnar svo góðar að hópnum var boðið að sýna það á hátíðum í Mónakó og Rússlandi.
Barn með geðröskun
En lífið var ekki eintómur dans á rósum eftir að Hildur kom heim. Hún gifti sig og eignaðist svo barn sem seinna kom í ljós að var með geðraskanir. „Það fór öll orkan í að sinna barninu. Þetta var rosalegt. Þótt við værum tvö með aðeins eitt barn, þá var annað okkar stanslaust með barnið og hitt var þá að vaska upp eða elda eða eitthvað. Hann þurfti stöðuga umönnun. Þetta var svakalegt álag.“
Athugasemdir