Fylgi Bjartrar framtíðar mælist minna en fylgi Flokks fólksins samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Björt framtíð mælist aðeins með 3,3 prósenta fylgi en 5 prósent atkvæða þarf til þess að ná manni inn á þing. Flokkur fólksins mælist hins vegar með 3,8 prósenta fylgi.
Í síðustu viðhorfskönnun Gallup sem fram fór í lok maí mældist Flokkur fólksins í fyrsta sinn stærri en Björt framtíð. Þá mældist fylgi Flokks fólksins 4,2 prósent en fylgi Bjartrar framtíðar var aðeins 3,6 prósent.
Björt framtíð hefur frá kosningum ekki mælst með minna fylgi. Flokkurinn hlaut 7,2 prósent atkvæða í alþingiskosningunum í fyrra en stuðningur við flokkinn hefur minnkað jafnt og þétt síðan í nóvember í fyrra.
Ríkisstjórnarsamstarf Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn vakti ólgu innan Bjartrar framtíðar. Þannig greiddi fjórðungur stjórnarmanna flokksins atkvæði gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá hafa þrír fyrrverandi þingmenn sagt sig úr flokknum frá kosningum. Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, gagnrýndi stjórnarmyndunarviðræður Bjartrar framtíðar við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn harðlega frá upphafi viðræðna í nóvember 2016. Sagði hann Bjarta framtíð og Sjálfstæðisflokkinn eiga enga samleið saman og sagði sig því úr flokknum. Auk Páls hafa Brynhildur Pétursdóttir og Róbert Marshall sagt sig úr flokknum en þau vildu ekki tengja þá ákvörðun við samstarf flokksins við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn.
Viðreisn mælist með 5,6 prósenta fylgi sem er með því lægsta sem flokkurinn hefur mælst hjá Gallup frá kosningum. Viðreisn hlaut 10,2 prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum og sjö þingmenn en kæmist rétt inn á þing miðað við mælingar í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 27,5 prósenta fylgi, Vinstri græn með 21,5 prósenta fylgi, Píratar með 14,2 prósent, Framsókn með 11,3 prósent og Samfylkingin 9,2 prósent.
Gallup gerði mælinguna dagana 15. júní til 2. júlí. Úrtakið var 2.870 manns og var þátttökuhlutfallið 56,5 prósent. Rúmlega 10 prósent tóku ekki afstöðu og nær 9 prósent svarenda sögðust myndu skila auðu ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Athugasemdir