Fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson segir í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni að fimm manns hafi haft samband við sig í fyllsta trúnaði „vegna Geirfinnsmálsins og sagst búa yfir vitneskju sem sýkni þá sem sakfelldir voru.“ Þá segir Ómar að eins og staðan sé í dag þá hefur ekkert þeirra treyst sér til þess að gefa sig fram undir nafni.
Hann segir nú vonandi eitthvað að gerast ef marka má fréttir en Ríkisútvarpið greindi frá því nú fyrir stundu að ný ábending hafi borist í Guðmundar- og Geirfinnsmálum og að lögreglu hafi verið falið að rannsaka málið og taka skýrslur.
Þá fullyrðir Ríkisútvarpið að ábendingin eða öllu heldur hvaðan hún er komin þykir þess eðlis að full ástæða sé til að rannsaka hana. Þá er einnig greint frá því að endurupptökunefnd hafi ákveðið að fresta að birta niðurstöðu sína um mögulega endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna og er það talið vegna þessarar ábendingar sem sögð er vera frá „traustum aðila“.
Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar, segir í samtali við Morgunblaðið að nefndin hafi fengið umrædda ábendingu fyrir millgöngu setts ríkissaknsóknara. Þá vonast Björn einnig til að rannsókn lögreglunnar á þessum nýja anga málsins taki ekki meira en nokkrar vikur. Þá kemur einnig fram í fréttinni að þessi nýja ábending tengist ekki handtöku tveggja manna í sumar sem var gerð í tengslum við rannsókn á morði Guðmundar Einarssonar.
„Við vonum að þetta gangi sem hraðast fyrir sig þannig að við getum lokið okkar störfum strax eftir áramót.“
Sex ungmenni voru á sínum tíma dæmd fyrir aðil að hvarfi þessara tveggja manna, Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar.
Athugasemdir