Fyrirtækið Facebook gefur ekki upp hverjir eru stjórnendur Facebook-síðunnar Kosningar 2016, sem hefur auglýst áróðursmyndbönd gegn stjórnarandstöðuflokkunum á fréttastreymi íslenskra notenda Facebook undanfarnar vikur.
Stundin sendi fyrirspurn til almannatengslahluta Facebook 5. október og fór fram á það, í nafni gagnsæis í lýðræðislegri umræðu, að fá upplýsingar um hverjir stæðu að baki síðunni og hversu mikla fjármuni þeir hefðu greitt Facebook fyrir að birta auglýsingar hjá Íslendingum.
Stundin fékk svar tveimur vikum síðar frá sænska almannatengslafyrirtækinu Spotlight. Yfirlýsingunni, sem barst frá almannatenglinum Daniel Nord, fylgdu leiðbeiningar um að ef vitnað skyldi í hana skyldi vitnað í „talsmann Facebook“:
„Við leyfum stjórnendum Facebook-síðna að vera nafnlausir vegna þess að við viljum vera viss um að fólk geti líka haft rödd á stöðum þar sem maður hættir lífi sínu með því að tala frjálst,“ sagði í yfirlýsingunni.
Athugasemdir