Úrræðum fyrir börn fanga á Íslandi er ábótavant. Þau glíma við félagsleg og sálræn vandamál en fá hvorki markvissan stuðning né aðstoð við að halda tengslum við foreldri meðan á afplánun stendur.
Þetta er niðurstaða lokaverkefnis Guðrúnar Helgu Ástríðardóttur til BA-prófs í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Hún ræddi við aðstandendur fanga, bæði dætur þeirra og barnsmæður, sem segjast mæta fordómum og brennimerkingu og upplifa skömm og vanlíðan.
„Þó að ýmis lög og reglugerðir séu til um réttindi barna og foreldra þeirra sem afplána dóma þarf að móta skýrari stefnu og laga hana að íslenskum veruleika svo hægt sé að veita þessum hópi þann stuðning og þau úrræði sem hann þarf á að halda,“ segir í niðurstöðukafla ritgerðarinnar. „Ég tel að brýnt sé að staðsetja hópinn sem aðstandendur fanga tilheyra einhvers staðar innan kerfisins svo hægt sé að veita honum meiri og betri aðstoð. Börn fanga eru í áhættuhópi hvað það varðar að leiðast sjálf út í afbrot og aðra óreglu og þess vegna er mikilvægt að þau fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda.“
Fram kemur að samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið sé umræddur hópur í brottfallshættu í námi og að með fyrirbyggjandi aðgerðum gætu fagaðilar innan skólakerfisins, svo sem skólasálfræðingar eða námsráðgjafar stigið inn í ferlið og veitt stuðning og aðstoð. „Mikilvægt er að fleiri og sýnilegri úrræði verði í boði fyrir þennan hóp í samfélaginu og til þess þurfa ríkið og sveitarfélög að finna ráð og lausnir og staðsetja hópinn jafnframt betur innan kerfisins.“
Athugasemdir