„Það hefur verið rætt við aðila innanlands sem hafa fjármuni til þess að standa í svona rekstri,“ segir Ingvar Unnsteinn Skúlason, eigandi fyrirtækisins Klappir Development ehf, aðspurður um hverjir það verða sem munu eiga 120 þúsund tonna álverið sem hugsanlega verður reist á Hafursstöðum í Skagabyggð. Klappir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra hafa undirritað samkomulag um uppbyggingu álversins.
„Þá geta menn náttúrulega verið sáttari við það að verkefnið verði til því þá verður arðurinn af því eftir í landinu.“
Ingvar vill ekki gefa upp hvort lífeyrissjóðirnir eru í fjárfestahópnum: „Ég vil ekkert kommentera á það.“ Aðspurður segist hann ekki hafa rætt við aðila á Norðurlandi vestra, meðal annars Kaupfélag Skagfirðinga, sérstaklega um að vera hluthafar í álverinu. „Við ætlum að gefa þetta upp þegar við erum tilbúnir til þess,“ segir Ingvar en hann sjálfur mun verða einn af eigendunum.
Kínverska fyrirtækið NFC mun byggja álverið en ekki vera í hluthafahópnum að sögn Ingvars. „Það kemur ekki til með að eiga álverið. Það mun taka þátt í rekstri þess, koma að því að setja það upp og sjá til þess að það virki. Að öðru kemur fyrirtækið ekki að álverinu […] Um er að ræða íslenskt álver. Þá geta menn náttúrulega verið sáttari við það að verkefnið verði til því þá verður arðurinn af því eftir í landinu.“
Athugasemdir