Dómstóll í stórhertogadæminu Lúxemborg hefur ákveðið að slíta og leysa upp félagið Matthews Holding S.A. sem var móðurfélag fjárfestingarfélags Pálma Haraldssonar, Fons. Þetta kemur fram í dómsúrskurði frá Lúxemborg sem dagsettur er þann 26. febrúar 2016. Matthew Holdings S.A. var skráð í eigu tveggja félaga í skattaskjólinu Tortólu, sem Kaupþing í Lúxemborg notaði gjarnan þegar bankinn stofnaði eignarhaldsfélög þar í landi fyrir íslenska kaupsýslumenn. Þau heita Waverton Group Limited og Starbrook International Limited.
Athygli vekur að Waverton og Starbrook eru sömu félög og Kaupþing í Lúxemborg notaði þegar bankinn stofnaði félag fyrir Gunnlaug Sigmundsson, GSSG Holding S.A., í Lúxemborg sem og aðra íslenska fjárfesta. Waverton og Starbrook virðast því hafa verið notuð til að stofna mörg félög fyrir íslenska athafnamenn.
Í úrskurðinum um félag Pálma í Lúxemborg kemur fram að félaginu sé slitið með tilliti til 203 greinar hlutafélagalaga í Lúxemborg. Ekki kemur fram hvort hluthafar Matthews Holding hafi óskað eftir slitum félagsins eða hvort yfirvöld þar í landi hafi ákveðið að slíta félaginu og skipa skiptastjóra yfir það. Yfirvöld í Lúxemborg geta hins vegar slitið félögum ef þau brjóta gegn hlutafélagalögum í landinu, til dæmis með því að skila ekki ársreikningum, ef félagið hefur ekki heimilisfesti eða skráða stjórnendur.
Engir ársreikningar til um félagið frá árinu 2006
Matthew Holdings S.A. tók meðal annars við tæplega 4,2 milljarða króna arði út úr Fons síðla árs árið 2007 en sú arðgreiðsla byggði á tæplega 29 milljarða króna bókfærðum hagnaði Fons árið áður. Þessi arðgreiðsla var fjármögnuð með láni frá Landsbankanum sem millifærði lánið í fimm hlutum inn á reikning Matthew Holdings S.A. hjá Kaupþingi í Lúxemborg þann 14. september árið 2007.
Síðan þá er ekkert vitað hvað varð um þessa peninga en samkvæmt yfirliti frá hlutafélagaskrá Lúxemborgar yfir ársreikningaskil Matthew Holdings S.A. hefur félagið ekki skilað ársreikningi þar í landi síðan árið 2006. Í þeim ársreikningi var félagið sagt eiga tæplega 1.800 milljóna króna eignir og var félagið sagt skulda tæplega 1.600 milljónir króna. Raunar hefur félagið ekki skilað neinum gögnum til hlutafélagaskrár í Lúxemborg sem snerta rekstur félagsins eftir það ár, ef undan er skilið skjal sem dagsett er í árslok 2010 þar sem tilkynnt er um breytingu á hluthöfum félagsins en samkvæmt því skjali afskráðu Tortólafélögin sig sem stjórnendur Matthew Holdings S.A. í árslok 2010.
Athugasemdir