Lögmaður Mirjam van Twuyver, Jóhannes Árnason, segir að dómarinn í málinu hafi stöðvað spurningar verjenda um hvers vegna Atla Frey Fjölnissyni var ekki veitt eftirför af lögreglu í máli sem Mirjam hjálpaði til við að upplýsa. Þannig hefði mögulega verið hægt að koma upp um höfuðpaurinn sem stóð að baki þessum málum.
Mirjam fékk á dögunum einn þyngsta dóm sem fallið hefur í fíkniefnamáli á Íslandi þegar hún var dæmd í 11 ára fangelsi fyrir smygl á um 20 kílóum af fíkniefnum. Mirjam var burðardýr í málinu, en líkt og fram hefur komið sýndi hún fádæma samstarfsvilja sem fólst meðal annars í því að taka þátt í tálbeituaðgerð lögreglu. Lögmenn Mirjam og Atla Freys benda á að lögreglan hafi gert mistök þegar Atli Freyr var handtekinn skömmu eftir að Mirjam afhenti honum fíkniefnin í stað þess að honum væri veitt eftirför. Því er ekki vitað hver stóð að baki innflutningi fíkniefnanna laus og höfuðpaurinn gengur enn laus.
Í dómnum kom fram að Atli Freyr átti að sækja töskuna og fara með hana á Grand Hótel. Ljóst var að Atli Freyr kom hvergi að skipulagningu smyglisins en líkt og fyrr segir var hann handtekinn fljótlega eftir að hann tók á móti töskunum, eftir að lögreglan hafði skipt fíkniefnum út fyrir gerviefni og staðsetningar- og upptökubúnað. Það er því ljóst að mistök voru gerð þegar lögreglan fylgdi Atla Frey ekki eftir.
„Þegar ákærða Mirjam hafi verið komin inn á hótelið aftur hafi ákærði Atli verið handtekin,“ er það eina sem kemur fram í dómnum sjálfum um klúður lögreglu.
Þetta gagnrýnir Jóhannes, og eins það að Ástríður Grímsdóttir, dómari við héraðsdóm Reykjaness, hafi stöðvað spurningar verjenda um þetta atriði.
Athugasemdir