Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Svona afbökuðu dómarar vitnisburð í Geirfinnsmálinu

Stund­in birt­ir kafla úr bók Jóns Daní­els­son­ar, „Sá sem flýr und­an dýri“.

Svona afbökuðu dómarar vitnisburð í Geirfinnsmálinu
Leirfinnur

Bók blaðamannsins Jóns Daníelssonar um Guðmundar- og Geirfinnsmál kemur út eftir helgi. Þar er nýju ljósi varpað á ýmis atriði sakamálanna og settar fram upplýsingar sem hvergi hafa birst áður.

Jón Daníelsson
Jón Daníelsson er höfundur bókarinnar

Stundin fékk leyfi Jóns til að birta kafla úr bókinni en forsala hennar á Karolina Fund lýkur á sunnudagskvöld. Kaflinn sem hér birtist heitir „Hver hringdi í Geirfinn?“ og fjallar um eitt dæmi þess hvernig dómarar virðast hafa afbakað vitnisburð og dregið ályktanir sem fengu ekki staðist miðað við önnur gögn sem lágu fyrir í máli Geirfinns Einarssonar. 

Bók Jóns, Sá sem flýr undan dýri, kemur út eftir helgi og er væntanleg í bókabúðir um miðja næstu viku.

Hver hringdi í Geirfinn?


Það var allt frá upphafi lykilatriði í Geirfinnsmálinu, hver sá maður var sem hringdi í Geirfinn Einarsson um eða rétt upp úr kl. 22.20, þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974. Í dómi sakadóms er talið að það hafi verið Kristján Viðar Viðarsson en Hæstiréttur tilgreinir annað hvort hann eða Sævar. En það vill svo til, að einmitt þau gögn sem dómararnir töldu sanna þetta, sönnuðu þvert á móti alveg óyggjandi, að hafi verið hringt í Geirfinn úr Hafnarbúðinni, var hringjandinn hvorki Kristján Viðar né Sævar.

Guðlaug Jónasdóttir var við afgreiðslu í Hafnarbúðinni að kvöldi 19. nóvember og gaf Hauki Guðmundssyni rannsóknarlögreglumanni mjög greinargóða lýsingu, bæði á manninum og atburðarásinni. Af lýsingu hennar er greinilegt að maðurinn beið nokkra stund áður en hann hringdi. Þegar Guðlaug spurði hvað hún gæti gert fyrir hann, sagðist hann ekkert ætla að kaupa, heldur doka aðeins. Guðlaug afgreiddi síðan a.m.k. einn mann áður en maðurinn bað um að fá að hringja. Þetta bendir ekki beinlínis til neinnar hraðferðar og er að því leyti í fullkominni andstöðu við niðurstöður lögreglu og dómara en skiptir að öðru leyti ekki máli í samhenginu.

Mánudaginn 25. október 1976 var Guðlaug fengin í sakbendingu og fyrir hana var stillt upp sjö mönnum, þeirra á meðal var Kristján Viðar. Guðlaug sagði engan mannanna líkjast þeim sem fékk að hringja í Hafnarbúðinni.

Þann 20. maí 1977 bar Guðlaug vitni fyrir dómi. Þá var Karl Schütz búinn að loka málinu og lýsa því yfir á blaðamannafundinum fræga að það hefði verið Kristján Viðar sem hringdi. Í dómskerfinu var greinilega litið á lausn Schütz sem endanlega og þau atriði sem ekki féllu sjálfkrafa að henni, voru einfaldlega lagfærð þannig að lausnin gengi upp. Yfirheyrslan yfir Guðlaugu fyrir dómi ber mjög greinilega með sér að þar var ekki verið að leita að neinum sannleika, heldur átti einfaldlega að fá hana til að fallast á þá niðurstöðu að Kristján Viðar væri sá sem hringdi.

En Guðlaug var aldeilis ekki á þeim buxunum. Það vildi nefnilega svo til að hún þekkti bæði Kristján og Sævar í sjón og hafði spjallað við þá, þegar þeir komu einhverju sinni í Hafnarbúðina. Frá þessu skýrði Guðlaug í skýrslutöku hjá Láru V. Júlíusdóttur, þá settum saksóknara, 8. október 2001. Lára segir í skýrslu sinni til dómsmálaráðherra:

„Guðlaug greindi jafnframt frá því að þeir Kristján Viðar og Sævar hefðu komið í Hafnarbúðina, ásamt einhverjum öðrum mönnum, nokkrum vikum áður en Geirfinnur hvarf. Þeir settust niður í rólegheitum og keyptu sér veitingar. Þar sem hún og Sævar hafi verið ágætlega málkunnug hafi hún spurt Sævar um hans ferðir og í hvaða „business“ hann væri …

… Í ljósi þessa sagði Guðlaug aðspurð útilokað að Kristján Viðar Viðarsson hafi verið maðurinn sem fékk að hringja í Hafnarbúðinni 19. nóvember 1974.“ 

Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að Guðlaug hefur sagt nokkurn veginn nákvæmlega það sama frammi fyrir sakadómurunum tæpum aldarfjórðungi fyrr. En þeir bókuðu frásögn hennar talsvert öðruvísi. Í skýrslunni er að vísu getið um að Kristján og Sævar hafi áður komið í Hafnarbúðina en síðan bóka sakadómararnir:

„Vitnið segir að maður sá er það hefur hér talað um að komið hafi í Hafnarbúðina 19. nóvember 1974 og fengið að hringja þar, hafi ekki verið Kristján Viðar. Hins vegar kunni Kristján Viðar að hafa komið þarna og hringt umrætt kvöld án þess að vitnið veitti því athygli, enda hafi margir fengið að hringja þarna þetta kvöld.“

Er þetta ekki dálítið skrýtinn texti? Við vitum að hringt var í Geirfinn um nálægt kl. 22.20. En hér er skyndilega allt kvöldið undir. Kristján Viðar gæti sem sagt hafa laumað sér inn og hringt um áttaleytið, sjöleytið, níuleytið? Eftir að hafa lesið fleiri skýrslur þar sem dómararnir lentu í ámóta vandræðum, fer ekki milli mála hvað hér hefur gerst. Guðlaug hefur verið spurð hvort hún treysti sér virkilega til að útiloka alveg að Kristján Viðar gæti hafa komist í símann og hringt einhvern tíma um kvöldið, án þess að hún tæki eftir því. Og hver getur fullyrt slíkt?

Þegar dómurunum hafði tekist að fá Guðlaugu til að svara þessari spurningu neitandi, var hægt að bóka eftir henni eins og gert var. En það dugði reyndar ekki alveg til. Eftir stóð enn þessi dularfulli maður sem enginn veit enn hver var. Maðurinn sem kom inn kringum korter yfir tíu, gekk um gólf í nokkrar mínútur og fékk svo að hringja.

Nú var allt í einu komin upp sú staða, að dómararnir þurftu að losa sig við þennan mann, sjálfan Leirfinn, lykilmanninn sem allt frá upphafi hafði þótt augljóst að hefði hringt í Geirfinn. Það hafði komið fram, að Guðlaug heyrði ekki hvað hann sagði og að símtalið var mjög stutt. Hún hefur nú í framhaldinu verið spurð hvort hún væri viss um að maðurinn hefði yfirleitt náð sambandi. Og Guðlaug, sem ekkert hafði heyrt, hefur auðvitað ekki getað fullyrt það. Í framhaldinu bókuðu dómararnir:

„Vitnið tekur fram, að maður sá, er bað um að fá að hringja og það hefur hér rætt um, hafi verið mjög stutta stund við símann og hafi það jafnvel talið líklegt að hann hafi ekki fengið svar. Það hafi a.m.k. ekki heyrt hann tala.“ 

Þar með var málið í höfn og það skipti ekki einu sinni máli að maðurinn lagði 20 krónur á borðið sem greiðslu fyrir símtalið. Það hefði hann þó tæpast gert ef hann hefði ekki náð sambandi.

Orðalagið „Vitnið tekur fram …“ vekur sérstaka athygli. Hér eru dómararnir sjálfir komnir á mjög hálan ís en með því að orða þetta svona varpa þeir allri ábyrgð á vitnið. Í raun og sannleika eru þeir sjálfir að draga ályktun sem fær ekki staðist, því framburður Guðlaugar var í rauninni alltaf skýr og ótvíræður. En þeir gefa til kynna að Guðlaug hafi sjálf haft frumkvæði að þessari ályktun.

Þannig fría þeir sjálfa sig. Í versta falli var það vitnið sem gerði sig sekt um rangan framburð.

Dómararnir virðast hafa talið sér takast að sýna fram á að ekki væri endilega víst að dularfulli maðurinn kæmi málinu neitt við en á hinn bóginn gat þetta vitni sem sagt alls ekki útilokað að Kristján Viðar hefði hringt úr Hafnarbúðinni. Sakadómararnir þrír virðast þó hafa gert sér ljóst að þeir voru staddir á hálum ís, því í dómsniðurstöðunum smeygja þeir sér fimlega fram hjá því að fullyrða að Kristján hafi farið inn í Hafnarbúðina til að hringja. Þess í stað láta þeir nægja að gefa það í skyn:

„Í yfirheyrslu 28. október 1976 var ákærði [Sævar] spurður um, hvort hann myndi símanúmerið, sem ákærði Guðjón skrifaði á miða, er ákærði Kristján Viðar fékk við Hafnarbúðina.“ 

Hæstaréttardómararnir þekktu ekki forsöguna jafn nákvæmlega en þeir treystu sér þó ekki til að fullyrða að Kristján hefði hringt. Þeir orðuðu niðurstöðuna svona:

„Miða verður við það, að ákærðu hafi komið í bifreiðinni að Hafnarbúðinni og að annað hvort Kristján eða Sævar hafi hringt þaðan til Geirfinns rétt eftir kl. 22:15, eins og áður greinir. Þá er sannað með skýrslum hinna ákærðu, að Geirfinnur kom að bifreið þeirra litlu síðar og settist inn í hana …“

Í Hæstarétti telst sem sagt sannað að annað hvort Kristján eða Sævar hafi hringt úr Hafnarbúðinni rétt eftir kl. 22.15. Þetta telja dómararnir sannað, þrátt fyrir alveg ótvíræðan vitnisburð Guðlaugar sem í rauninni er ógerlegt að kalla nokkuð annað en fullgilda sönnun fyrir því að hvorugur þeirra hafi hringt úr Hafnarbúðinni á þessum tíma.

Til viðbótar gera Hæstaréttardómararnir sig seka um þau mistök að tímasetja símtalið fimm mínútum of snemma. Jafnvel miðað við hinn allt of þrönga tímaramma lögreglunnar, var útilokað að Sævar eða Kristján hefðu getað hringt fyrr en eftir kl. 22.20. Með þessari tímasetningu einni og sér má því segja að Hæstaréttardómararnir dæmi sjálfa sig úr leik.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Guðmundar- og Geirfinnsmál

Hefur unnið að sáttum fyrir hönd forsætisráðuneytisins en hafnar því að lögregla hafi beitt harðræði
FréttirGuðmundar- og Geirfinnsmál

Hef­ur unn­ið að sátt­um fyr­ir hönd for­sæt­is­ráðu­neyt­is­ins en hafn­ar því að lög­regla hafi beitt harð­ræði

Guð­jóni Skarp­héð­ins­syni, ein­um hinna sýkn­uðu í Guð­mund­ar- og Geirfinns­mál­um, er sjálf­um kennt um rang­an dóm Hæsta­rétt­ar yf­ir sér í grein­ar­gerð setts rík­is­lög­manns, Andra Árna­son­ar, sem hafn­ar því að rann­sak­end­ur hafi brot­ið með refsi­verð­um hætti gegn Guð­jóni. Andri hafði sam­band við að­stand­end­ur í vor „til að skoða til­tekna sátta­mögu­leika fyr­ir ráðu­neyt­ið“.
Henry Kissinger um Sævar Ciesielski:  „Hvað er svona pólitískt viðkvæmt?“
FréttirGuðmundar- og Geirfinnsmál

Henry Kissin­ger um Sæv­ar Ciesi­elski: „Hvað er svona póli­tískt við­kvæmt?“

Ný­fram­kom­in gögn sýna að banda­rísk yf­ir­völd höfðu áhyggj­ur af með­ferð­inni á Sæv­ari Ciesi­elski og töldu fram­göng­una gagn­vart hon­um geta orð­ið Ís­landi til skamm­ar á al­þjóða­vett­vangi. Henry Kissin­ger, þá­ver­andi ut­an­rík­is­ráð­herra Banda­ríkj­anna, spurð­ist fyr­ir um mál­ið og fylgd­ist grannt með. 

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
3
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár