Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra sagði ósatt í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þegar hún fullyrti að nefnd um veitingu ívilnana hefði fengið tilmæli um að leggja aukna áherslu á tiltekin atriði sem kveðið er á um í lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga.
„Nefndin hefur ekki fengið slík tilmæli,“ segir í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar þar sem óskað var eftir upplýsingum um tilmælin sem Björt minntist á í þingræðu sinni.
Eins og fram kom í síðustu viku verður yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um að efna ekki til ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju ekki fylgt eftir með lagabreytingum. Þetta sagði umhverfisráðherra í umræddum fyrirspurnartíma þann 9. febrúar þegar hún brást við spurningu um framkvæmd markmiðsins sem vísað hefur verið til sem eins helsta lykilmáls Bjartrar framtíðar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Björt fullyrti að í rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga væri „talað um náttúru- og umhverfisvernd“. Slík orð er hvergi að finna í lögunum. Hins vegar kveðið á um að verkefni skuli standast lög um mengunarvarnir og að liggja skuli fyrir hvort framkvæmdir séu háðar umhverfismati. Verkefni sem Björt hefur vísað til sem „mengandi stóriðju“, svo sem álver og kísilmálmver, geta hæglega staðist slík skilyrði.
Björt sagðist ekki telja lagabreytingu nauðsynlega til að framfylgja þeirri stefnu að mengandi stóriðja fái ekki ívilnanir á grundvelli gildandi laga. „Ég tel svo ekki vera eftir að við skoðuðum mjög vel með atvinnuvegaráðuneytinu nákvæmlega þennan rammasamning um nýfjárfestingar. Í honum koma vissulega ekki fram orðin mengandi stóriðja en það sem þó kemur þar fram og rímar mjög vel við áherslur okkar, þá grænu atvinnustefnu sem nú er tekin við, er að í rammalöggjöfinni er talað um náttúru- og umhverfisvernd. Við ætlum að draga þá þætti ofar og hafa þá ofar en hina. Sú þriggja manna nefnd sem er í ráðuneytinu hefur fengið þau tilmæli og veit að það er ekki í stefnu ríkisstjórnarinnar að veita mengandi stóriðju ívilnanir og hún ætlar ekki að gera það,“ sagði hún.
Daginn eftir, þann 10. febrúar, sendi Stundin fyrirspurn til Þórs Hrafnssonar, upplýsingafulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Guðrúnar Gunnarsdóttur, ritara þriggja manna nefndar um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga. Óskað var eftir gögnum um tilmælin sem Björt vísaði til og spurt hvenær tilmælin bárust nefndinni, hver gaf þau og með hvaða hætti. Eftirfarandi svar barst í gærkvöldi: „Nefndin hefur ekki fengið slík tilmæli. Henni er kunnugt um efni stjórnarsáttmálans líkt og fram kemur í hinum tilvitnuðu ummælum.“ Stundin hefur gefið Björt kost á að tjá sig um málið og mun birta skýringar hennar kjósi hún að bregðast við.
Athugasemdir