Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, vék stuttlega af þingfundi á þriðjudag meðan fjármálaáætlun hans var til umræðu til að funda með mótframbjóðanda sínum til formanns Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík.
„Það var ánægjulegt að hitta Benedikt og áttum við málefnalegt samtal um framtíð og tilgang Hollvinafélagsins og kosningarnar sem ég tel að verði afar spennandi,“ skrifar Hrafnkell Hringur Helgason, sem býður sig fram gegn Benedikt, í stöðuuppfærslu um málið á Facebook.
Benedikt hefur sætt gagnrýni fyrir að sækjast eftir endurkjöri sem formaður hollvinafélags framhaldsskóla meðan hann gegnir embætti fjármálaráðherra.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingkona Pírata, fullyrðir að það sé „hagsmunaárektstur með meiru að fjármálaráðherra fari með formannsstöðu í samtökum sem eru beinlínis stofnuð til þess að verja hagsmuni skólans gagnvart niðurskurði ríkisins í garð framhaldsskólakerfisins á sama tíma og hann situr sjálfur með niðurskurðarhnífinn í hendinni“. Segir hún að slíkt rýri trúverðugleika Benedikts sem fjármálaráðherra.
„Mun hann nota aðstöðu sína til þess að hygla einum framhaldsskóla umfram öðrum þar sem hann er nú kominn í stöðu til þess? Fjármálaráðherra þarf að vera hafinn yfir allan vafa í svona málum. Þetta kallast nefnilega að sitja beggja vegna borðsins, og er einfaldlega ekki í lagi,“ skrifar Ásta Guðrún á Facebook, en fleiri núverandi og fyrrverandi þingmenn hafa furðað sig á málinu á samfélagsmiðlum.
Enn hafa ekki verið birtar upplýsingar um mótframboðið gegn Benedikt Jóhannessyni á vef Menntaskólans í Reykjavík né á vef Hollvinafélags skólans. Í stöðuuppfærslu sinni á þriðjudag sagði Hringur að Benedikt hefði heitið sér „að hann myndi hlutast til um að aðalfundargögn yrðu leiðrétt og tilkynnt yrði um framboð“ hans. Ekki hefur ræst úr því.
„Það kemur mér á óvart og mér finnst þetta vont. Ég hélt að venjan væri sú, þegar kosið er í stjórn og formennsku félaga, að tilkynnt væri um framkomin framboð þegar framboðsfrestur rynni út. Hér sýnist mér að ekki sé gætt jafnræðis milli framboðs míns og framboðs fjármála- og efnahagsráðherra,“ segir Hrafnkell Hringur í samtali við Stundina.
„Hér sýnist mér að ekki sé gætt jafnræðis milli framboðs míns og framboðs fjármála- og efnahagsráðherra“
Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem Benedikt kynnti í apríl, verður dregið verulega úr fjárframlögum til framhaldsskólastigsins næstu fimm árin og árið 2018 mun menntakerfið sæta fjórfalt strangari aðhaldskröfu en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar. Stjórnendur framhaldsskólanna og framhaldsskólakennarar hafa gagnrýnt áætlunina harðlega. Þá hefur ríkisstjórnin einnig sætt gagnrýni vegna áforma um sameiningu Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskóla Íslands.
Benedikt er ekki eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem lætur sig málefni Menntaskólans í Reykjavík varða, því Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, gefur einnig kost á sér til stjórnarsetu í félaginu. Aðalfundurinn fer fram á laugardaginn á hátíðarsal skólans.
Uppfært kl. 19:30: Upplýsingar um aðalfundinn á vef MR voru leiðréttar að frumkvæði skólastjórnenda eftir að fréttin birtist. Nokkru seinna var skjalinu á vef Hollvinafélagsins einnig breytt.
Athugasemdir