Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri nefnir bæði mannskæðar árásir í erlendum borgum og aukinn fjölda erlendra borgara á Íslandi sem ástæður þess að lögregla hafi þurft að auka viðbúnað sinn á fjöldasamkomum. Mikil umræða varð eftir að sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra gengu um vopnaðir skotvopnum í miðbæ Reykjavíkur á meðan fjölskylduhátíðin Color Run fór fram um síðustu helgi. Haraldur segir ljóst að sami viðbúnaður verði fyrir hendi á hátíðarhöldunum vegna 17. júní um næstu helgi og eins á tónlistarhátíðinni Secret Solstice. Þá sé til skoðunar að sérsveitin annist eftirlit á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.
Hann segir að verklagi sérsveitarinnar hafi verið breytt eftir að óðir menn hafi gengið og ekið um götur Lundúnaborgar fyrir skemmstu og myrt þar saklausa borgara. Hann nefnir einnig árásir í Stokkhólmi, Manchester og í París, en að nýjustu árásirnar í Lundúnum hafi gert útslagið. „Það var sá atburður sem varð til þess að við óskuðum eftir mati greiningadeildar ríkislögreglustjóra á því hvort við myndum bregðast við með einhverjum ákveðnum hætti og niðurstaðan varð sú að sérsveitarmenn, sem að öllu jöfnu eru með vopnin sín í sérsveitarbílunum, eru núna með skammbyssur á lærinu. Þeir eru þá tilbúnir í mjög skjót viðbrögð ef einhver hætta stafar að almenningi sem kemur saman í stórum stíl á samkomum, nú aðallega hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem tugir þúsunda eru samankomnir á skemmtunum sem eru haldnar hérna,“ segir Haraldur. Um tímabundna ráðstöfun sé að ræða, sem sé endurmetin frá degi til dags.
„Það er mat lögreglu að það þurfi að geta gripið mjög skjótt til aðgerða.“
Aðspurður hvort það liggi ekki fyrir mat á innlendum aðstæðum minnir Haraldur á að viðbúnaðarstigið sé enn í meðallagi. „Þessir atburðir erlendis hafa beinst að almennum borgurum og þegar við erum að skoða ástandið hér á landi, þar sem fjöldi fólks kemur saman, þá vill lögreglan vera viðbúin til þess að grípa inn í án tafar, án þess að þurfa að hörfa af vettvangi, leita að sínum vopnum og koma svo aftur inn á vettvang sem kannski er lokaður og tugir þúsunda manna samankomnir. Þannig það er mjög erfitt fyrir lögreglu að nálgast viðburð sem á sér stað í slíkri mannþröng. Það er mat lögreglu að það þurfi að geta gripið mjög skjótt til aðgerða.“
Almenningur margoft séð sérsveitina undir vopnum
Haraldur segir að það sem geti gerst annars staðar geti hugsanlega gerst á Íslandi. Ekki sé hægt að útiloka að atburðir líkt og þeir sem áttu sér stað í London, París, Brussel og víðar í Evrópu geti átt sér stað hér á landi. Hann nefnir voðaverk Anders Breivik í Noregi árið 2011, en fáir hafi talið líklegt að slíkir atburðir gætu gerst í Noregi. „Við verðum að ganga út frá því að lögreglan geti tryggt öryggi borgaranna og verndað borgarana gagnvart óðum mönnum sem hugsanlega kunna að birtast hér eins og þeir birtust í London,“ segir hann.
En hvers vegna núna? Þú nefnir til dæmis Noreg, en margir telja íslenskt samfélag mun líkara því norska. Hvers vegna varð ekki þessi viðbúnaður eftir voðaverkin í Noregi?
„Menn töldu það vera mjög sérstæðan, einstakan atburð sem myndi ekki eiga hliðstæðu á Norðurlöndunum,“ svarar Haraldur. „Síðan koma þessi hryðjuverk hvert á fætur öðru, og ekki alltaf hryðjuverkamenn heldur morðóðir menn. Þetta hefur verið að færast nær okkur, eins og ég segi þá hefur þetta verið í þessum borgum og þessu er beint að almennum borgurum. Það virðist ekki skipta máli hvort það eru konur og börn, það virðist bara vera tilgangurinn að myrða sem flesta og valda sem mestum skaða og óróa í samfélaginu. Þannig við viljum reyna allt sem við getum hér, íslenska lögreglan, til þess að tryggja öryggi borgaranna og öruggt samfélag. Það er tilgangurinn með þessu.“
En hvað segirðu þá við þá borgara sem hafa lýst yfir óánægju með þetta og segja að sýnileiki vopna sé ekki til þess fallinn að vekja með þeim öryggiskennd?
„Ég vil nú segja almennt séð að íslensku almenningur þekkir vel hina vopnuðu lögreglu, þekkir vel vinnubrögð sérsveitarinnar og hefur margoft séð sérsveitina undir vopnum.“
Vopnaútköll sérsveitarinnar stóraukist
Haraldur segir að Ríkislögreglustjóri geti einhliða ákveðið að auka vopnaburð lögreglunnar. Ekki þurfi að fá samþykki hjá dómsmálaráðherra eða þjóðaröryggisráði, svo eitthvað sé nefnt. „Sérsveitin er á ábyrgð ríkislögreglustjóra. Þetta er eina vopnaða lögreglan í landinu og hún heyrir undir ríkislögreglustjóra. Og það er hans að vega og meta og taka ákvarðanir um það með hvaða hætti sérsveitin starfar,“ segir hann.
„Við erum með samfélag sem er samsett af miklum fjölda erlendra borgara.“
Þá segir hann verkefni sérsveitarinnar, sem kalli á vopnaburð, hafa aukist gríðarlega í ár. „Bara núna á fyrstu fimm mánuðum þessa árs þá eru eitt hundrað tilvik þar sem vopnuð sérsveitin er kölluð til. Það er jafnmikill fjöldi og var allt árið 2016. Þannig þessi vopnaútköll sérsveitarinnar hafa stóraukist.“
Hvers vegna heldurðu að það sé?
„Ætli það sé ekki í fyrsta lagi vegna þess að lögreglumenn eru orðnir meðvitaðri um að það þurfi að tryggja vettvang, það þurfi að tryggja lögreglumenn og starfsemi þeirra á vettvangi. Verkefnin eru orðin erfiðari. Það er til dæmis töluvert um hnífamál sem lögregla þarf að takast á við. Við erum með samfélag sem er samsett af miklum fjölda erlendra borgara, bæði þeirra sem starfa hér og dvelja hér, ferðamenn, hælisleitendur og svo framvegis. Þannig að samsetningin hér á hverjum tíma af því fólki sem er í landinu hefur breyst mjög verulega undanfarin tíu, fimmtán ár.“
Og það kallar á þessi viðbrögð?
„Allt kallar þetta, bæði þróunin í nágrannalöndunum, breytt samfélag hér, allt hefur þetta kallað á að lögreglan þarf að aðlagast breyttum tíma.“
Athugasemdir