Samskiptavandinn innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur versnað undanfarna mánuði, meðal annars vegna sviptinganna sem urðu innan deildarinnar sem annast rannsóknir á fíkniefnamálum og skipulagðri brotastarfsemi. Mikill fjöldi viðmælenda Stundarinnar innan úr lögreglunni og stjórnsýslunni fullyrðir að á ákveðnum rannsóknarsviðum hafi starfsemi lögreglunnar veikst verulega, meðal annars vegna skipulagsbreytinga og tilfærslna á reyndu starfsfólki sem dregið hafi úr sérhæfingu og um leið skilvirkni rannsókna. Gríðarleg tortryggni sé ríkjandi og margir farnir að leita sér að nýjum starfsvettvangi vegna ástandsins.
Fyrr á árinu fjallaði Stundin um gríðarlega óánægju vegna vinnubragða Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra og Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings embættisins. Umdeildir stjórnunarhættir lögreglustjórans voru sagðir lýsa sér í eineltistilburðum, bræðisköstum, undirróðri, niðurlægjandi framkomu og samráðsleysi.
Frá því að Stundin greindi frá ástandinu þann 7. febrúar síðastliðinn hafa miklar sviptingar orðið í gömlu fíkniefnadeildinni. Innanríkisráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu fyrr í sumar að lögreglustjóri hefði brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þegar lögreglufulltrúa úr deildinni var vikið frá störfum í kjölfar þungra ásakana sem hann hefur nú verið hreinsaður af. Jafnframt hefur fyrrverandi yfirmaður deildarinnar stefnt ríkinu vegna meints eineltis Sigríðar Bjarkar í sinn garð og krafist ógildingar á breytingu sem lögreglustjórinn gerði á starfsskyldum hennar. Fleiri lögreglumenn hafa fengið lögmannsaðstoð og íhuga að stefna ríkinu vegna framgöngu lögreglustjóra gagnvart sér.
Hátt í þrjátíu hafa kvartað
Fjöldi þeirra sem kvartað hafa til Landssambands lögreglumanna vegna ástandsins telur nú hátt í 30 manns en jafnframt hafa starfsmenn leitað til innanríkisráðuneytisins. Stundin hefur nú fengið staðfest að lögfræðingar á ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kvörtuðu undan afskiptum Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings embættisins, af störfum þeirra og funduðu með starfsmönnum innanríkisráðuneytisins um málið.
Athugasemdir