Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi Útvarps sögu, sendi tölvupóst um brottrekinn starfsmann á aðra starfsmenn stöðvarinnar þar sem hún sakaði hann um kynferðislega áreitni.
Tölvupósturinn var sendur á starfsmanninn, Höskuld Höskuldsson, og aðra starfsmenn í kjölfar fréttaflutnings Stundarinnar á dögunum, en hefur síðan verið sendur víðar. Stundin hefur tölvupóstinn undir höndum.
„Þú skalt líka hafa í huga að ég hef þagað yfir ýmsu sem þig varðar eins og kvörtunum frá kvenfólki sem hefur starfað þarna í gegnum árin,“ segir Arnþrúður í tölvupóstinum. Höskuldur hafði starfað á Útvarpi Sögu í um sjö ár og var hann með vikulegan síðdegisþátt, Bixið.
Höskuldur segir í samtali við Stundina að þessi orð séu lýsandi fyrir hvernig Arnþrúður hagi sér og að þau dæmi sig sjálf. Hann segist ekki nenna að fara í meiðyrðamál við Arnþrúði. „Ég hef aldrei áður fengið svona viðbjóð í andlitið og þeir sem þekkja mig vita að ég er heiðarlegur í alla staði. Þetta dæmir sig sjálft,“ segir Höskuldur.
Ég hef aldrei áður fengið svona viðbjóð í andlitið og þeir sem þekkja mig vita að ég er heiðarlegur í alla staði.
Þegar Stundin ræddi við Arnþrúði í dag var hún ósátt við fyrri frétt af uppsögn Höskuldar. „Birtu bara bréfið. Ég hef ekkert um þetta að segja annað en það að ég skulda þessum manni ekki krónu. Þetta var engin uppsögn, honum var tilkynnt þetta í janúar þegar við fengum Gallup-könnunina. Þetta eru bara ómerkilegheit,“ segir Arnþrúður.
Hún vildi ekki gefa upp hvaða konur hafa kvartað undan Höskuldi, líkt og fram kemur í bréfinu sem hún sendi á starfsfólk.
Tölvupósturinn í heild sinni
„Höskuldur.
Alveg gat ég búist við skít frá þér eins og komið hefur á daginn. Hlaupa beint í fjölmiðla. Frímúrarinn sjálfur sem er ávallt að gera „góðverk“ og hjálpa þeim sem um sárt eiga að binda. Hvað heldur þú eiginlega að þú sért?
Ég gerði þér grein fyrir því í janúar s.l. að það yrðu breytingar á Stöðinni, eftir að ég fékk Gallup niðurstöðurnar. Málið er að þú varst ekki með nokkra hlustun og hefur svo verið lengi. Þrátt fyrir það hef ég leyft þér að „delera“ að vild og ALDREI reynt að hafa áhrif á efnistök né annað hjá þér, öll þau 10 ár sem þú hefur verið með þátt þinn.
Hvað varstu eiginlega að gera þarna?
Þú vildir styðja Stöðina, í upphafi og hafðu þakkir fyrir EN gerðu þér grein fyrir að utanaðkomandi þættir kosta. Þú hefur sannarlega fengið að njóta þín fyrir allan peninginn og GOTT BETUR.
Þú skalt líka hafa í huga að ég hef þagað yfir ýmsu sem þig varðar eins og kvörtunum frá kvenfólki sem hefur starfað þarna í gegnum árin.
Ég get líka sagt frá opinberlega ef þú vilt. Þú ættir að skammast þín ærlega fyrir þessa framgöngu þína Höskuldur.
Með kveðju, Arnþrúður“
Algjörlega klumsa
Höskuldur telur raunverulegu ástæðu uppsagnarinnar tengjast pólitískum skoðunum sínum öðru fremur. Hann hafi fjallað á gagnrýnin hátt um bæði lekamálið og Evrópusambandsaðild, en það telur hann að hafi ekki fallið í geð Arnþrúðar. „Ég var algjörlega klumsa. Það er bara spurning hvað maður á að eyða tíma og annað í fólk sem er meira og minna galið. Það sem hún gerir ofan í annað er að hún notar útsendingartímann hjá sér til þess að hjóla í fólk, þar sem maður getur ekki varið sig. Guðmundur Ólafsson, Sigurður G. Tómasson og Siggi stormur fengu að finna fyrir þessu, og fleiri og fleiri,“ segir Höskuldur.
Ég veit ekki hvað maður á að vera að rótast í henni. Hún grípur til hvaða ráða sem er til að réttlæta gjörðir sínar.
Segist hafa haft fantahlustun
Hann segist hafa fulla ástæðu til að fara í meiðyrðamál en líkt og fyrr segir segist Höskuldur ekki hafa áhuga á að munnhöggvast við Arnþrúði. „Þegar þú ert að eiga við fólk sem er ekki normal, þá verða viðbrögðin ekki eins og hjá normal fólki.
Þetta var náttúrlega alveg svakalegt sem hún sendi á mig, alveg rosalegt. Eins og ég segi, ég veit ekki hvað maður á að vera að rótast í henni. Hún grípur til hvaða ráða sem er til að réttlæta gjörðir sínar,“ segir Höskuldur, en hann gefur ekki mikið fyrir þá skýringu að hann hafi ekki haft mikla hlustun.
„Ég veit að ég var með fantahlustun.“
Athugasemdir