Hvernig í ósköpunum á saklaus sálfræðingur úr sveit á Íslandi að fara að því að aðstoða fólk í Írak? Fólk frá þessu landi sem hefur þurft að þola hverja hörmungina á fætur annarri? Nú síðast yfirtöku hryðjuverkasamtaka sem virðast ekki víla fyrir sér að hálshöggva mann og annan af engu tilefni. Hvað hef ég fram að færa? Þessi spurning var mér hugleikin þegar ég tók að mér það verkefni að fara sem sálfræðingur með Læknum án landmæra til Írak. Og ég verð að viðurkenna að þessi spurning hefur farið í gegnum huga minn nánast daglega þá tæpu þrjá mánuði sem ég hef nú dvalið í landinu. Það er ekki það að ég hafi almennt ekki trú á sjálfri mér eða getu minni sem sálfræðingur. Ég held reyndar að ég sé oft alveg hreint ágætis sálfræðingur! Málið er bara að hér er allt svo miklu flóknara.
Í fyrsta lagi flækir það málin að ég tala ekki tungumálið. Sálfræðimeðferð byggir á því að tala við skjólstæðinginn og því er þetta vissulega vandamál fyrir sálfræðing. Ég hélt lengi vel að ég gæti aldrei unnið fyrir hjálparsamtök eftir að ég valdi sálfræðina sem starfsvettvang. Blótaði því oft að hafa ekki valið læknisfræði eða hjúkrun til að geta látið æskudrauma um hjálparstarf á fjarlægum slóðum rætast. Þegar vinkona mín, sem hafði ráðið sig sálfræðing hjá Læknum án landamæra, sagði mér að það væri reyndar mikil þörf fyrir sálfræðinga hjá samtökunum ákvað ég að láta slag standa og sótti um. Í ljós kom að Læknar án landamæra höfðu í raun ekki áhuga á því að ráða mig sem meðferðaraðila heldur sem verkefnastjóra yfir sálfræðiþjónustunni sem við veitum á svæðinu. Sú þjónusta felst í því að innlendir ráðgjafar ferðast með heilsugæslu á hjólum til afskekktra þorpa í Ninawa-héraði í norðanverðu Írak. Þar bjóðum við upp á einstaklingsviðtöl og hóptíma. Skjólstæðingarnir eru af báðum kynjum, á öllum aldri, og kljást við vítt svið sálræns og félagslegs vanda. Mitt hlutverk felst fyrst og fremst í því að leiðbeina og styðja við innlendu ráðgjafana. Sjá til þess að faglegum kröfum sé mætt og greiningar og meðferð sé í samræmi við leiðbeiningar Lækna án landamæra. Ég fylgi ráðgjöfunum í þeirra daglega starfi og aðstoða þá og leiðbeini við greiningar og meðferð. Ég vinn með túlki sem sér til þess að ég skilji það sem fram fer. Starfið mitt hér er því í raun gjörólíkt því sem ég geri sem þerapisti heima á Íslandi.
„Karl með arabaklút á höfðinu er bara eins og hann er. Fyndinn, sjarmerandi, hress, fúll á móti, reiður eða áhyggjufullur. Er bara maður að kljást við sitt.“
En það er ekki nóg með að starfið mitt sé allt öðruvísi en það sem ég geri heima heldur eru skjólstæðingarnir svo allt öðruvísi líka. Eða það hélt ég allavega í byrjun. Karlarnir klæðast flestir hvítum serkjum og konurnar hylja allar hár sitt og sumar hluta andlitsins líka. Margar konur eru með húðflúr í andlitinu og á höndum. Karlarnir vefja klútum um höfuð sitt. Augun eru dökk og húðin sólbökuð. Það er ekki laust við að fyrst þegar ég gekk inn í biðstofu fulla af tattúveruðum konum og körlum í kjólum að ég yrði allt að því skelkuð. Var ég velkomin hér, vestræna konan, í mínum buxum og stuttermabol, með mína fölu húð og hárið úti um allt? Hlæjandi í tíma og ótíma og grínandi við strákana. Eftir að hafa haldið mig að mestu til hlés í fyrstu komst ég þó fljótlega að því að þó að fólk klæði sig allt öðruvísi en maður sjálfur og tali framandi tungumál er fólk alltaf bara fólk. Þegar eldri kona með tattú í andlitinu segir þér frá raunum sínum kemstu að því að eldri kona er bara eldri kona. Karl með arabaklút á höfðinu er bara eins og hann er. Fyndinn, sjarmerandi, hress, fúll á móti, reiður eða áhyggjufullur. Er bara maður að kljást við sitt. Konur grínast um það hvernig karlar eru og karlar kvarta undan konum. Börn eru alls staðar börn. Sum eru feimin og hanga í pilsfaldinum á pabba sínum, meðan önnur eru frökk, stríðin og jafnvel óþekk. Síðast en ekki síst er bros alltaf bros. Þau fjölmörgu bros sem ég hef mætt í vinnunni hafa algerlega brætt mig. Því þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem fólk hefur þurft að ganga i gegnum hér þá er oftast stutt í brosið. Nú orðið hlakka ég til að mæta í þorpið og hitta forvitnu guttana sem bíða eftir okkur með sín brúnu augu og blíðu bros. Sjá feimnislegu brosviprurnar á konunum þegar ég storma inn og kasta kveðjunni as-salamu alaykum (friður sé með yður) til þeirra.
Margir hafa spurt mig hvort það sé ekki hrikalega erfitt að vinna í þessu samhengi. Hvort fólk sé ekki dauðhrætt daginn út og inn. Fullt af kvíða og allir með geðröskun. Börnin niðurbrotin og döpur. En það er svo skrítið að þrátt fyrir allt þá er fólk bara að lifa sínu daglega lífi hér. Með hryðjuverkasamtökin i örfárra kílómetra fjarlægð og herþotur sveimandi yfir nánast daglega. Það virðist vera að mannskepnan hafi ótrúlega aðlögunarhæfni. Við þurfum alltaf fyrst og fremst bara að lifa af. Fullorðna fólkið er bara að hugsa um að sjá sér og sínum farborða líkt og annars staðar í heiminum. Börnin kvarta undan kennurum og leiðinlegum fögum í skólanum. Ræða hvort þau haldi með Barcelona eða Real Madrid. Biðja um að teikna og fá að skoða símann minn. En auðvitað er vonleysi og kvíði áberandi hjá mörgum. Margir hafa verið hraktir frá heimilum sínum og viðskilnaður við ástvini svíður sárt. Framtíðin óvissan ein og nútíðin hark. Svo heyrir maður líka sögur sem eru svo framandi og óhugnanlegar að það er erfitt að skilja þær. Eins og saga gömlu konunnar sem ég hitti í vikunni. ISIS komu og hertóku þorpið hennar. Svo kom her bandamanna og hrakti þá á brott. Svo sprengdi herinn upp húsið hennar og flestra annarra araba í þorpinu. Nú eru hryðjuverkasamtökin handan við hæðina en herinn sem sprengdi upp húsið hennar á að tryggja öryggi hennar og fjölskyldu hennar. Svo mætum við, útlendingarnir og Kúrdarnir, segjumst vera góðu gaurarnir sem komnir erum til að hjálpa. Vonleysið skein úr andliti hennar og við höfðum fá svör. Sögurnar eru margar svona flóknar, spurningarnar erfiðar og fátt um svör.
Athugasemdir