Ég er ekki skipulagður maður og geri alltaf allt á síðasta snúningi. Lengi vel lét ég það fara algerlega með mig og var sífellt með í maganum út af þessu. Alltaf horfandi á næsta deddlæn, alltaf með móral, vakandi fram á nætur síðustu daga fyrir skil, alltaf sveittur og handviss um að ég væri að skila hálfunnu verki vegna tímahraks.
Skálmöld er að fara til útlanda að spila í dag. Leigubíllinn kemur klukkan níu, núna eftir 42 mínútur og ég á eftir að skrifa um 820 orð. Fyrir nokkrum árum hefði ég verið stressaður og með samviskubit. En ég er bara ekki svoleiðis lengur.
Fyrir nokkrum árum síðan fékk ég símtal frá fyrsta vini mínum, Vilhelm Antoni Jónssyni. Ég segi fyrsta vegna þess að við kynntumst þegar við vorum eins árs og báðir nýfluttir að Laugum í Reykjadal. Villi er fæddur 3. janúar og ég 25. og þetta hefur verið sirka í júní ári síðar. Hann var að bjóða mér að koma í þáttinn sinn, Nei hættu nú alveg, á Rás 2. Þetta var sem sagt á þessari öld, ekki þarna 1979 þegar við vorum eins árs. Ég sagði að sjálfsögðu já, ég hafði farið áður og þetta er hin besta skemmtun. Tilsettan dag mætti ég í Efstaleitið og tékkaði mig inn. Fékk svona merkimiða á klemmuspjaldi sem sennilega átti að tryggja að ég kippti ekki útsendingarbúnaðinum úr sambandi eða rispaði allar orginal Hljóma-plöturnar. Ég var vel gíraður fyrir þáttinn og mjakaði mér í átt að stúdíói 12. Og þarna var Villi við enda gangsins. „Bíddu, ég þarf aðeins að klára að skrifa niður síðustu spurninguna,“ kallaði hann til mín og hvarf eitthvert inn. Tveimur mínútum síðar birtist hann svo aftur og stökk þá upp um hæð til þess að sækja útprentið sem hann hafði pantað með ríkisboðleiðum. Og síðan kom hann, hálf mínúta í útsendingu og allt klárt. Ég brosti aðeins að honum og svo tókum við upp þáttinn.
„Og þetta hafði hann klárað 20 sekúndum fyrir útsendingu. Ábyrgðarleysi, það var orð sem flaug í huga mér.“
Fyrir þá sem ekki hafa heyrt þættina hans Villa þarf að nefna af hvaða tagi þeir eru. Villi les upp spurningar og þátttakendur svara. Þátturinn er meira hugsaður sem skemmtiefni en spurningaþáttur og því er farið um víðan völl. Spurningarnar eru langar og víðfemar, ekkert endilega um málefnið sem að lokum er spurt um og allt gert til þess að fá fólk við viðtækin til að kíma. Eðli spurninganna útheimtir því talsverða yfirlegu höfundar og vinnu við að koma öllu í horf. Og þetta hafði hann klárað 20 sekúndum fyrir útsendingu. Ábyrgðarleysi, það var orð sem flaug í huga mér.
Eftir þáttinn laumaði ég þessu að mínum gamla vini, þessu með frestunaráráttuna. Að vera alltaf svona á síðustu stundu með allt, ég væri nú sjálfur svona að einhverju marki, söngtextar eftir mig væru oftar en ekki frumlesnir þegar þeir eru sungnir í hljóðveri, ég fengi oft í magann vegna þessa en ég væri nú að reyna að bæta mig. „Ég var svona líka,“ sagði naglbítur. Var hann svona? Ég var að enda við að horfa á hann sanna fyrir mér að hann væri einmitt afskaplega slæmt dæmi um nákvæmlega þetta. Þarna lá allt ríkisbatteríið undir, og þjóðin öll hefði þurft að hlusta á þrúgandi þögnina í 57 mínútur ef prentarinn hefði þó ekki nema hikstað á ögurstundu. „Ég var svona þar til að ég áttaði mig á því að ég er bara svona. Ég geri hlutina á síðustu stundu. Og þegar maður hefur áttað sig á því getur maður hætt að vera með í maganum í aðdraganda deddlænanna.“
Og þarna liggur þetta nákvæmlega grafið. Ég vinn seint. Ég vinn hratt. Ég fresta öllu fram í hið óendanlega og legg af stað út í strætóskýlið í fyrsta lagi þegar ég sé að ég verð að hlaupa til að ná vagninum. Ég skila hlutum af mér á síðasta degi og oft undir miðnætti. Í nótt sem leið fór ég að sofa klukkan fjögur af því að ég var að berja saman texta fyrir Skálmöld sem þurfti að syngja inn í dag. Það sem hefur breyst er að ég opnaði Word-skjalið ekki fyrir hálfum mánuði síðan og lét hvítan flötinn éta samviskuna innan úr mér. Nei, ég kom heim í gær, fór með dóttur mína í heimsókn svo Agnes gæti lært, kom mér heim um hálf níu, kom barninu í ró og vann svo fram á miðja nótt. Auðvitað var ég þreyttur klukkan hálf átta í morgun en núna er búið að syngja lagið og það hljómaði frábærlega. Að sjálfsögðu, það var aldrei hætta á öðru.
Með þessu er ég ekki að fría mig ábyrgð, ekki að segja að það sé í lagi að slugsa og láta leti koma niður á öðrum og ekki að gera lítið úr vinnulagi þeirra sem gera hlutina á annan og skipulegri hátt. Ég er bara að segja að við rífum okkur sjálf allt of mikið niður fyrir að vera það sem við erum. Þó að ég sé stundum svefnlaus er þetta minn stíll og ég er gríðarlega stoltur af þeim verkum sem ég hef unnið á þennan hátt. Af hverju er þetta svona slæmt? Af hverju hópast að okkur markþjálfar, bessevisserar og sjálfskipaðir vinnulagssérfræðingar og láta manni líða illa fyrir að vera það sem maður er? Ef þú vilt gera hlutina alla í Excel, þá bara endilega. Ég vil samt frekar fá að gera þá svona, með allt út um allt og treysta á að prentarinn bili ekki nákvæmlega núna á ögurstundu.
Klukkan er 20:56. Pff, létt.
Athugasemdir